Fyrir 24 árum síðan hvarf Bronco nafnið af götum og slóðum eftir þriggja áratuga framleiðslu. Íslendingar fóru ekki varhluta af því Bronco-æði sem greip heimsbyggðina þegar hann kom fyrst á markað árið 1966. Hann þótti bera af öðrum jeppum í lúxus um leið og hann hafði torfærugetu. Endurkoma nýs Bronco er því mörkuð þeirri sögu sem fyrri kynslóðir skildu eftir sig og því ekki skrýtið að skírskotunin sé mikil í sögu bílsins.

Það dylst engum þegar hann sér nýja bílinn að hann er mjög líkur fyrstu kynslóðinni í útliti, þótt hann sé nýtískulegur að mörgu leyti. Hann lítur líka út fyrir að hafa torfærugetu, sérstaklega í Sasquatch útfærslunni. Hann er byggður á sterkri stigagrind, er með heilum afturöxli, mismunadrifslæsingum að framan og aftan, auk millikassa. Í Sasquatch útfærslunni kemur hann á 35 tommu dekkjum frá verksmiðju, sem er það mesta sem við höfum séð í fjöldaframleiddum bíl. Auk þess fær hann þá slaglanga Bilstein dempara. Í hefðbundinni útfærslu er nýr Bronco með 300 mm veghæð, sem er meira en í nýjum Land Rover Defender, sem eflaust yrði keppinautur hans ef Bronco kemur hingað til lands, ásamt Jeep Wrangler að sjálfsögðu.

Ford býður bílinn með sjö þrepa aksturskerfi sem nýtir vélbúnað og læsingar bílsins til hins ýtrasta, enda fjórar þeirra fyrir torfæruakstur. Það er meira að segja skriðstillir, sem heldur bílnum á sama hraða gegnum erfiðar torfærur. Auk þess er snúningslæsing sem læsir hjóli til að auðvelda bílnum að taka krappari beygjur í torfærum. Tvær bensínvélar með forþjöppum verða í boði, annars vegar 2,3 lítra fjögurra strokka vél sem skilar 266 hestöflum og 420 Newtonmetrum togi og svo 2,7 lítra V6 vél með tveimur forþjöppum, en afl hennar er 306 hestöfl og togið 542 Newtonmetrar. Tvær skiptingar verða í boði, sjö gíra beinskipting sem aðeins kemur með minni vélinni og svo tíu þrepa sjálfskipting. Með beinskiptingunni eru hlutföll skriðgírsins 94,75:1.

Ford Bronco kemur á markað vorið 2021 í bæði þriggja og fimm dyra útfærslu, auk Bronco Sport- jepplingsins sem byggður er á grunni Ford Escape. Sá bíll er allt önnur Ella með einrýmis byggingarlagi og sídrifi og minni vélum. Að sögn Gísla Jóns Bjarnasonar, sölustjóra Ford hjá Brimborg, er stefnt á að geta boðið nýjan Bronco á Íslandi á næsta ári.

Þrjár gerðir Bronco koma strax frá byrjun, bæði þriggja og fimm dyra, auk Bronco Sport-jepplingsins. Hægt verður að fjarlægja þak og hurðir og setja aftur í bílinn, á báðum gerðum jeppanna.