Útlitið kom fyrst í ljós á Vision T tilraunabílnum, en framendinn er sérstakur með grilli sem rennur saman við aðalljósin, sem verða ósýnileg þegar slökkt er á þeim. Línurnar í nýjum Tucson eru líka mun skarpari en áður og afturljósin ná hliða á milli. Bíllinn er aðeins stærri en fyrirrennarinn og munar mest um að hjólhaf er 10 mm lengra. Þýðir það meira fótarými og allt að 620 lítra farangursrými. Endurhönnunin nær einnig til innréttingar, sem er með lægra mælaborði til að auka útsýni. Tveir 10,25 tommu litaskjáir eru allsráðandi í mælaborði og miðjustokk. Auk Apple CarPlay og Android Auto er komið innbyggt Google og Apple Calendar, þar sem er hægt að skipta á milli notenda með einföldum hætti. Upplýsingakerfið talar við símann á ýmsa vegu, til dæmis sendir það vegvísi í farsímann til að notandinn geti komist á áfangastað fótgangandi ef hann þarf að leggja langt frá ákvörðunarstað.

Bæði vélbúnaður og fjöðrun nýs Tucson eru endurhönnuð, en nú verður hægt að velja um stillanlega dempara fyrir dýrari útgáfur hans. Minnsta vélin í boði er 1,6 lítra bensínvél sem skilar 148 hestöflum við sex gíra beinskiptingu. Þrjár gerðir mildra tvinnútfærslna með 48 volta kerfi verða í boði. Með 1,6 lítra vélinni fer tvinnbíllinn í 178 hestöfl en hann verður boðinn með nýju hraðanæmu beinskiptingunni, sem er án kúplingspedala. Einnig er hægt að fá bílinn með sjö þrepa sjálfskiptingu og tvinnútfærslu með 134 hestafla dísilvél. Alvöru tvinnbíll verður í boði frá upphafi, einnig með 1,6 lítra vélinni og að þessu sinni 59 hestafla rafmótor. Sú útgáfa skilar 227 hestöflum og 350 Newtonmetra togi. Búast má við tengiltvinnútgáfu á næsta ári. Verð hefur ekki verið kynnt enn þá en verður kynnt á næstu vikum, að sögn Ragnars Steins Sigþórssonar, sölustjóra Hyundai. „Við áætlum að fá fyrstu kynningareintökin í lok nóvember, ef COVID lofar“ sagði Ragnar enn fremur.

Innréttingin í Tucson er lægri en áður til að auka útsýni út úr bílnum.