Endurhæfing hinnar sjö ára gömlu Klöru sem slasaðist alvarlega í hoppukastalaslysinu á Akureyri í júlí í fyrra er enn í fullum gangi.
Móðir Klöru segir endurhæfinguna ganga hægt en að hún gangi og að alltaf megi sjá einhverjar framfarir hjá litlu hetjunni.
„Það eru töluverðar líkur á því að hún komi ekki alveg 100 prósent til baka,“ segir móðir hennar.
Greint var frá því í gær að rannsókn á slysinu sem átti sér stað við Skautahöllina á Akureyri í byrjun júlí í fyrra væri nú á lokastigi og að málið væri komið til ákærusviðs.
Líklegt þykir að næstu skref í málinu verði að kalla til dómkvaddan matsmann sem mun fara yfir það hvernig kastalinn var festur við jörðu.
Hoppukastalinn tókst á við Skautahöllina og voru tugir barna inni í kastalanum. Sjö voru flutt á sjúkrahúsið á Akureyri og flogið var með Klöru til Reykjavíkur.
Klara lenti á gjörgæslu eftir slysið og hefur hún og fjölskylda hennar staðið í langri og strangri endurhæfingu.
Fréttablaðið greindi í janúar frá áheita- og styrktarsíðunni Áfram Klara á Facebook sem stofnuð var fyrir Klöru og fjölskyldu hennar.
Fjölskylda Klöru og vinir taka þátt í Landvætti í ár, sumir í heilum og aðrir í hálfum.
Áhugasamir geta fylgst með áheita- og styrktarsíðu Klöru á Facebook undir nafninu, Áfram Klara. Þá mun hópurinn sem æfir og tekur þátt í Landvættum sýna frá ferlinu undir hastagginu #áframKlara. Þeir sem vilja geta styrkt Klöru og fjölskyldu hennar í gegnum eftirfarandi reikning:
Kennitala: 081114-2500
Banki: 0123-15-043225