„Heimsfaraldurinn hefur snert okkur mjög illa. Við höfum borgað öllum okkar samstarfs­aðilum en fáum ekki krónu endurgreidda frá erlendum hótelum eða flugfélögum. Ef við endurgreiðum allt þá fellur fyrirtækið,“ segir Elísabet Agnarsdóttir, eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical.

Hún stendur nú frammi fyrir því að þurfa að endurgreiða þeim rúmlega 650 útskriftarnemum sem eiga pantaða ferð hjá Tripical á næstu dögum og vikum, það mun setja fyrirtækið í þrot og falla þá niður ferðir hjá þeim rúmlega tvö þúsund manns sem eiga pantaða ferð síðar. „Ég hef verið með lögmenn í margar vikur til að fá endurgreiðslur erlendis. Það vill enginn endurgreiða okkur. Þetta er vonlaust dæmi.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, tilkynnti á fimmtudag að hún gerði ekki ráð fyrir að frumvarp hennar um inneignarnótur frá ferðaskrifstofum yrði afgreitt frá Alþingi, en með því hefði skyldu ferðaskrifstofa til að endurgreiða ferðir að fullu verið aflétt. Ein af ástæðunum væri að lönd væru að opna landamæri sín mun fyrr en áður var talið. „Við vorum búin að bíða eftir þessum lögum í þrjá mánuði,“ segir Elísabet.

„Ef þau hefðu orðið að veruleika þá gætum við notað þær inneignir sem við eigum úti og reynt að snúa bátnum.“Elísabet gagnrýnir stjórnvöld harðlega. „Ríkið hefur valdið okkur miklu tjóni, ríkisstjórnin lætur okkur bíða og á meðan getum við engu svarað. Við sitjum uppi með gríðarlegan kostnað á meðan ekkert kemur inn og við getum ekkert gert,“ segir hún. „Við erum sex manna fyrirtæki sem hefur gengið vel, við höfum ekki verið að greiða neinn arð og álagningin er í lágmarki. Allt í einu hefur þetta breyst í einhverja martröð.“

Hún hefði viljað að ríkið aðstoðaði ferðaskrifstofur þegar verið væri að hvetja landsmenn til að afbóka ferðir. „Sóttvarnalæknir hefur valdið okkur miklu tjóni, hann hefur tvisvar sagt Íslendingum að ferðast bara innanlands á þessu ári. Nú er verið að opna landamæri Íslands og í öðrum löndum Evrópu og treyst á að ferðamannaiðnaðurinn vakni til lífsins. Það er því talað í kross sem veldur óvissu og misskilningi bæði hjá okkur og ferðamönnum,“ segir Elísabet.

Ósammála því að það sé erfitt að ná í Tripical

Eina leiðin núna til að endurgreiða sé að fara með fyrirtækið í þrot. „Við erum 100 prósent tryggð. Tryggingakerfið virkar þannig að eina leiðin til að virkja það er að fyrirtækið fari í þrot. Það getur tekið allt að tvö ár og myndum við því telja að það væri betra fyrir neytendur að fá inneignarnótur.“

Á fimmtudaginn var greint frá því að útskriftarnemar við Menntaskólann á Akureyri væru mjög reiðir yfir því að fá ekki endurgreiddar alls 40 milljónir króna vegna ferðar til Ítalíu sem bókuð er á mánudaginn. Ekki stendur til að endurgreiða ferðina. „Við getum efnt þessa ferð. Við getum líka boðið þeim ferð til Krítar, Krít hefur komið mjög vel út úr faraldrinum, mun betur en Ísland. Það þarf heldur enginn að fara í sóttkví, hvorki þar né hér.“Telur hún að Tripical hafi teygt sig eins langt og hægt sé. „Við getum boðið þeim allt nema endurgreiðslu þar sem við höfum nú þegar greitt okkar samstarfsaðilum erlendis. Inneign í fjögur ár sem þau geta framselt án kostnaðar eða fært ferð sína eftir þeirra óskum.

Við höfum boðið útskriftarhópunum upp á ferðir innanlands í takt við ráðleggingar og ábendingar frá foreldrum. Costa del Hella, flott fimm daga prógramm með hótelgistingu, afþreyingu og skemmtun. Nemarnir myndu þá fá inneign fyrir afganginum sem þeir geta notað síðar eða framselt.“

Elísabet vísar því á bug að erfitt sé að ná sambandi við Tripical. „Við erum að svara í símann og svörum öllum tölvupóstum eins fljótt og auðið er. Vandinn er sá að ástand heimsfaraldursins breytist dag frá degi og það sem við skrifum í pósti stenst kannski ekki daginn eftir,“ segir Elísabet.

„Við erum nú með tvo lögmenn í fullri vinnu við að verja okkur. Okkur berast lögfræðibréf daglega.“Margir eru reiðir yfir að fá ekki ferðirnar endurgreiddar. „Við höfum fullan skilning á því að margir séu reiðir og ósáttir við stöðuna. Okkur hefur því miður verið hótað. Það er hótað að koma heim til mín. ­Starfsfólkið tekur þetta nærri sér, enda höfum við alltaf staðið við okkar skuldbindingar hingað til,“ segir Elísabet. Hún hefur þó fullan skilning á því að fólk vilji fá endurgreitt. „Ég skil það fullkomlega, en þetta er vonlaus og erfið staða sem við erum í.“