„BHM hefur árum saman barist fyrir því að endurgreiðslubyrði námslána verði létt og að ábyrgðamannakerfið verði afnumið að fullu. Verði þessar tillögur að veruleika, sem ég ætla að vona að verði, þá eru þau baráttumál í höfn,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, um tillögur starfshóps um endurgreiðslubyrði námslána.

Forsætisráðherra skipaði umræddan starfshóp í sumarbyrjun í tengslum við kjaraviðræður á opinberum markaði. Fékk hópurinn það verkefni að yfirfara reglur vegna endurgreiðslu námslána. Var meðal annars bent á þá staðreynd að lántakar greiddu um fjögur prósent launa sinna í afborganir af námslánum sem svarar til um það bil einna mánaðarlauna á ári.

Í hópnum sátu fulltrúar þriggja ráðuneyta auk fulltrúa BHM og iðnaðarmanna. Þórunn gerir grein fyrir niðurstöðum starfshópsins í aðsendri grein á blaðsíðu 9 í Fréttablaðinu í dag. Hún leggur áherslu á að samstaða hafi verið innan hópsins um tillögurnar.

Verði umræddar tillögur að veruleika myndi það hlutfall af launum sem lántaki greiðir árlega í afborganir námslána lækka um tíu prósent. Þá er lagt til að vextir lækki úr einu prósenti í 0,4 prósent sem þýðir að afborganir lækka án þess að lánstími þurfi að lengjast.

Ekki hefur verið gerð krafa um ábyrgðarmenn á námslánum frá árinu 2009. Hins vegar eru ábyrgðir lána sem teknar voru fyrir þann tíma enn í gildi. Starfshópurinn leggur til að ábyrgðir lána sem tekin voru fyrir 2009 falli einnig niður.

Þá er lagt til að veittur verði enn meiri afsláttur vegna uppgreiðslu námslána en nú er. Þórunn segir að kjör námslána varði mjög stóran hóp í samfélaginu. „Þetta yrði stór áfangi, ekki bara fyrir fólkið sem er í aðildarfélögum BHM, heldur einnig fyrir þær þúsundir sem skulda námslán.“

Samningar aðildarfélaga BHM hafa verið lausir frá því í lok mars síðastliðnum og viðurkennir Þórunn að viðræður hafi gengið hægt. Farið verður yfir stöðu viðræðnanna við ríkið á sameiginlegum baráttufundi í húsnæði BHM í fyrramálið.

Fjögur aðildarfélög BHM af 21 hafa samið við ríkið og samþykkt kjarasamning en eitt, Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, felldi kjarasamninginn. Sautján aðildarfélög eiga því enn ósamið við ríkið.