Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður Dómarafélags Íslands, segir ákvörðun Fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að krefja ýmsa ráðamenn þjóðarinnar um endurgreiðslu ofgreiddra launa vera geðþóttaákvörðun.

Kjartan greinir frá málinu á Facebook-síðu sinni.

Fjársýsla ríkisins hefur undanfarin þrjú ár ofgreitt laun ýmissa ráðamanna, eða alls 260 einstaklinga, um því sem nemur um 105 milljónum króna og hafa einstaklingarnir nú verið krafðir um endurgreiðslu vegna málsins.

Kjartan segir þá undarlegu ákvörðun hafa blasað við dómurum landsins í morgun, að laun þeirra hefðu verið lækkuð fyrirvaralaust.

„Þessi lækkun mun vera í umboði fjármálaráðherra sem hefur boðað frekari og afturvirkar skerðingar á launum dómara.

Að sögn Kjartans setur þessi aðgerð alla þá sem reka mál á hendur ríkinu í þá stöðu að eiga von á því að framkvæmdavaldið geti lækkað laun dómara eftir eigin geðþótta.

„Þar með eru borgararnir sviptir réttlátri málsmeðferð og því að geta borið mál sín undir sjálfstæðan og óvinhallan dómstól í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir Kjartan og bætir við að stjórn Dómarafélags Íslands hafi sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins.

Í yfirlýsingunni kemur fram að Dómarafélag Íslands mótmæli harðlega ólögmætri ákvörðun fjármálaráðherra um einhliða og afturvirka skerðingu á kjörum dómara.

„Ákvörðunin er í andstöðu við gildandi lög um launakjör dómara og með henni er vegið að rétti borgaranna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Aðgerðirnar fela í sér atlögu framkvæmdavaldsins að dómsvaldinu sem ekki á sér hliðstæðu í íslenskri réttarsögu.“