Til stóð að halda heljarinnar fjöl­skyldu­há­tíð á tjald­svæðinu í Þrasta­skógi við Þrastarlund um helgina en eftir að hertar sam­komu­banns­reglur voru kynntar í dag þurfti að blása dag­skránna af. Ingó Veður­guð, Eyvi og KK voru meðal þeirra sem áttu að koma fram um helgina.

Búið er að aflýsa fjölmörgum útihátíðum í dag sem áttu að fara fram um helgina meðal annars Einni með öllu á Akureyri, Sæludögum í Vatnaskógi og svo Innipúkanum í Reykjavík.

Pálmi Þór Er­lings­son, einn eig­andi tjald­svæðisins í Þrasta­skógi, segir í samtali við Fréttablaðið að eina ráðið hafi verið að núll­stilla tjald­svæðið og endur­greiða alla miðana, til að halda fjölda­tak­mörkunum.

„Nú er það bara fyrstur kemur fyrstur fær,“ segir Pálmi sem jafn­framt vonast til þess að ná að fylla tjald­svæðið að nýju.

„Það er allt tómt núna en við opnum á morgun klukkan tólf í hádeginu. Þetta er lík­legast eina tjald­svæðið á landinu þar sem allt laust,“ segir Pálmi og hlær.

Mikill kostnaður lagður í að endurnýja aðstöðuna


Pálmi segir afar leiðinlegt að þurfa endurgreiða alla miðana en vonast þó til þess að fólk láti engu að síður sjá sig á tjaldsvæðinu. „Þetta er auð­vitað mjög leiðin­legt þar sem við erum ný­búnir að endur­nýja alla að­stöðuna, salerni, sturtur og leik­tækin með til­heyrandi kostnaði en við ætlum ekki að láta þetta á okkur fá og vonumst til að sjá sem flesta um helgina,“ segir Pálmi.

Hann segir að það standi enn­þá til að gera vel við þá sem mæta á tjald­svæðið þrátt fyrir að tónleikahaldi verður stillt í hóf og sam­komu­banns­reglum fylgt.

Ekkert verður af tónleikahaldi í Þrastaskógi fremur en annar staðar um helgina.
Ljósmynd/Skjáskot