„Þegar ég fór að grúska nánar í Vöggustofumálinu fann ég ýmislegt áhugavert efni um hvað fór fram þarna innandyra sem varð til þess að mig langað að fjalla meira um málið,“ segir Elín Hirst, fréttamaður á Fréttablaðinu og Hringbraut.

Elín hefur gert tvo hálftímalanga þætti um málið ásamt Pétri Fjeldsted Einarssyni kvikmyndagerðarmanni þar sem fram kemur nýtt efni í bland við það sem Elín hefur áður fjallað um á Fréttavaktinni á Hringbraut.

„Við höfðum meðal annars upp á konu, Fríðu Einarsdóttur ljósmóður, sem hafði unnið á vöggustofunni sumarlangt í kringum 1960 þegar hún var 17 ára gömul. Það tók mjög á hana að starfa við þær ströngu reglur sem giltu um umgengni við börnin, það mátti lítið snerta þau og þau voru höfð í rúmunum nær allan sólarhringinn að sögn Fríðu. Það endaði með því að hún gafst upp og gekk út,“ segir Elín.

Fríða Einarsdóttir og Árni H. Kristjánsson
Mynd/AntonBrink

Ljós punktur í annars átakanlegri sögu

Að sögn Elínar var eini punkturinn fyrir Fríðu sá að hún tók ástfóstri við lítinn dreng sem var vistaður á vöggustofunni. „Við ætlum að sýna þegar þau hittast aftur rúmum 60 árum síðar,“ segir Elín.

Á undanförnum mánuðum hefur Elín fjallað mikið um Vöggustofumálið á Fréttavaktinni á Hringbraut. Nú ætlar hún að halda áfram þessari umfjöllun. „Við förum ítarlega yfir svokallað Vöggustofumál í tveimur 30 mínútna þáttum og sýnum nýtt efni sem við höfum komist á snoðir um, eins og áður segir, í bland við það að sem við höfum áður fjallað um,“ segir hún.

Í þáttunum er meðal annars rætt við Viðar Eggertsson leikstjóra, Árna Kristjánsson sagnfræðing, Fríðu Einarsdóttur ljósmóður, Sæunni Kjartansdóttur sálgreini, Þorbjörgu Guðrúnu Sigurðardóttur, fóstru og fyrrverandi forstöðukonu Vöggustofunnar frá 1972-1975.

Vöggustofuþættirnir verða sýndir á Hringbraut í opinni dagskrá fimmtudagskvöldið 9. júní, sem er í kvöld, og framhaldið viku síðar, fimmtudagskvöldið 16. júní á sama tíma.