Viðbygging og endurbætur á Ráðhúsi Akureyrar munu kosta á bilinu 1,5 til 2 milljarða króna gróflega áætlað. Enn á þó eftir að teikna að fullu og kostnaðarmeta vinningstillögu hönnunarkeppni sem haldin var í ár.

„Þarfagreining liggur nokkurn veginn fyrir en það á eftir að taka endanlega ákvörðun um hvað verði gert,“ segir Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn. Með því að koma stjórnsýslunni allri á sama staðinn muni nást sparnaður sem nemi 100 til 150 milljónum króna á ári.

„Við settum inn þessa upphæð núna en hver lokaupphæðin verður vitum við ekki alveg,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins og formaður bæjarráðs. Verið sé að máta skrifstofur starfsfólks við staði í húsinu í núverandi mynd. „Það er spurning hversu mikil uppbyggingin þarf að vera og hvort þessi tillaga sem vann keppnina sé of stórtæk,“ segir hann. Alltaf þurfi þó að fara í einhverjar framkvæmdir, að minnsta kosti skipta um þak og byggja við.

Samkvæmt fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar eru 1,35 milljarðar króna áætlaðir í endurbætur á Ráðhúsinu á næstu þremur árum. Þar af 500 milljónir árið 2022 og 600 árið 2023.

Það var arkitektastofan Yrki sem vann hönnunarkeppnina og voru úrslitin tilkynnt í júlí síðastliðnum. Gert er ráð fyrir viðbyggingu norðan við Ráðhúsið, endurgerð fjórðu hæðar og endurbætur á annarri og þriðju hæð. Þrettán aðrar tillögur voru sendar inn. Í sumar var stefnt á að klára verkefnið á þremur árum.