„Næsti áratugur verður áratugur Reykjavíkur þegar kemur að uppbyggingu,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á kynningarfundi Reykjavíkurborgar í gær.

Árleg kynning á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík með áherslu á framkvæmdir sem eru í gangi og uppbyggingaráform var haldin í gær og var þéttsetinn bekkurinn í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.

Dagur fór þar yfir bæði fortíð og framtíð í skipulagi borgarinnar. Hann sagði í ræðu sinni ætla ekki að staldra við heldur bæta í en um 12 þúsund íbúar hafa sest að í Reykjavík síðan 2017, eða heill Mosfellsbær. „Já, eða Árborg, Seltjarnarnes, Grindavík, Hveragerði og Ölfus til samans,“ sagði Dagur.

Bankarnir spáðu rangt

Hann sagði að bankarnir hefðu spáð rangt um að það væri verið að byggja of mikið í Reykjavík þegar þeir skrúfuðu fyrir lánalínur árið 2019. „Því er teflt fram að Reykjavík hafi ekki átt lóðir og hafi ekki verið að samþykkja deiliskipulag. Það er rangt.

Árið 2019 var fjallað um að offramboð á íbúðum væri á leiðinni og allir bankarnir, ekki einn og ekki tveir heldur allir, skrúfuðu fyrir.

Það er merkilegt að það er vilji til þess að draga þessa umræðu inn í pólitík eða hvort það sé meðvirkni með bönkunum sem spáðu rangt og gátu ekki annað því vaxtalækkun sem bjó til þessa eftirspurn var ekki fyrirséð frekar en Covid,“ sagði Dagur.

Tryggi blandaða borg

Hann benti á að borgin væri tilbúin með lóðir, svæði og sýn á það hvað gerðist næst en næstu fimm árin færu 86 milljarðar í uppbyggingu, eða 17 milljarðar á ári. Þá sagði hann að borgin væri að tryggja félagslega blöndun inni á reitum sem er á höndum einkaaðila.

„Við erum að semja um að ákveðið hlutfall á uppbyggingarreitum, líka á þeim sem eru dýrir og glæsilegastir, verði þannig að félags­bústaðir hafi forkaupsrétt og það verði félagsleg blöndun. Þar erum við að tryggja blandaða borg og að við endum ekki uppi með ógeðslega leiðinleg hverfi fyrir ríkt fólk sem er alltaf í útlöndum hvort eð er og síðan fyrir fátækt fólk þar sem er ömurð.

Það hefur sýnt sig, til dæmis á stóra uppbyggingarverkefninu á sjötta áratugnum, að það er betra fyrir alla,“ sagði Dagur.