Hulda Hólm­kels­dóttir segir sögu bestu vin­konu sinnar, Tinnu Ingólfs­dóttur heitinnar, vera dæmi um hversu ó­mögu­legt er að ná nektar­myndum af netinu. Árið 2014 talaði Tinna í fyrsta skipti opin­ber­lega um staf­ræna kyn­ferðis­of­beldið sem hún hafði orðið fyrir. Mánuði síðar var hún bráð­kvödd á heimili sínu.

„Ég hef verið að­standandi ein­stak­linga sem hafa orðið fyrir nauðgun en það hefur ekkert breytt lífi mínu jafn mikið og að vera að­standandi Tinnu í gegnum þar sem hún varð fyrir í sínu lífi,“ út­­skýrir Hulda. „Staf­rænt of­beldi er stöðug ógn. Það er hvergi skjól frá því og ein­hver getur fyrir­­vara­­laust rekist á þetta hvar og hve­­nær sem er og sent á þig.“

„Ég fékk á­bendingu um að það væri enn­þá verið að biðja um nektar­myndir af henni eftir að við vorum búin að jarða hana.“

Þessa til­finningu upp­lifði Hulda sjálf eftir and­lát Tinnu. „Það næsta sem ég get komist að því að setja mig í fót­spor hennar er þegar ég fékk á­bendingu um að það væri enn­þá verið að biðja um nektar­myndir af henni eftir að við vorum búin að jarða hana.“

Fjallað var um and­lát Tinnu í fjöl­miðlum enda hafði hún ný­lega vakið at­hygli fyrir grein sem hún birti um eigin upp­lifun af staf­rænu kyn­ferðis­of­beldi. „Þá myndaðist eftir­spurn eftir þessum myndum aftur,“ segir Hulda.

Á þeim tíma­punkti skildi hún loks að svona myndir hverfa aldrei. „Þetta endar aldrei ekki einu sinni eftir and­lát. Það er of­boðs­lega yfir­þyrmandi til­finning.“

Hulda kveðst viss um að Tinna hefði haldið áfram að berjast fyrir fórnarlömbum stafræns ofbeldis.
Mynd/Aðsend

Varð fyrir að­kasti á göngum skólans

Tinna var að­eins þrettán ára þegar hún var fyrst beðin um að senda nektar­myndir af sér. Hún var ein­mana, ó­örugg og fórnar­lamb ein­eltis og hélt að maðurinn bak við skjáinn vildi vera vinur hennar. Hún sendi þessum huldu­manni því myndir af sér og hélt á­fram að senda myndir til slíkra manna þar til hún varð fimm­tán ára.

„Ég gaf engum þessara manna leyfi til að á­fram­senda þessar myndir, eða setja þær fyrir allra augu á Inter­netið. Ég hélt að ég væri að gera þeim per­sónu­legan greiða,“ sagði Tinna í greininni sem hún birti árið 2014.

Þrátt fyrir það fóru myndirnar í dreifingu árið 2007. Þá var hún á fyrsta ári í Mennta­skólanum á Akur­eyri og varð fyrir miklu að­kasti vegna myndanna. „Ég fékk að heyra komment eins og „Gaman að sjá þig í fötum!“ nánast dag­lega,“ sagði Tinna í greininni.

„Ég hljóp ber­fætt niður götuna og ætlaði að fleygja mér út í sjó."

Ætlaði að ganga í sjóinn

Hún lét for­eldra sína aldrei vita hvað var að gerast og telur Hulda að vin­kona hennar hafi ekki litið á það sem raun­veru­legan val­kost að biðja um hjálp. Árið 2008 var nektar­myndum af Tinnu síðan rennt inn um dyralúgu heima hjá henni og for­eldrum hennar í ó­merktu um­slagi. Þann dag komst fjöl­skyldan loks að því sem var að gerast í lífi dóttur þeirra.

„Ég hljóp ber­fætt niður götuna og ætlaði að fleygja mér út í sjó, en pabbi minn náði mér við endann á henni,“ skrifaði Tinna um daginn sem bréfið barst. Hún upp­lifði mikla skömm og bjóst við að vera á­vítuð fyrir slæmar á­kvarðanir sínar. „Mér hafði aldrei nokkurn tímann dottið í hug að ég hefði orðið fyrir ein­hvers konar mis­notkun,“ skrifaði Tinna.

„Eftir að for­eldrar Tinnu uppgötvuðu hvað var að eiga sér stað fór hún að átta sig á því að það væri ekki eðli­legt að það væru allir alltaf svona vondir við hana,“ segir Hulda. Hún hafi á tíma­bili á­kveðið að auð­veldast væri að gangast við orð­spori sínu sem drusla enda hafi enginn reynt að komast að því hvort hún væri eitt­hvað meira en það.

„Mér hafði aldrei nokkurn tímann dottið í hug að ég hefði orðið fyrir ein­hvers konar mis­notkun,“ skrifaði Tinna.
Mynd/Aðsend

Náði aldrei að vinna úr greiningunni

„Það er ekki ó­þekkt að fólk sem verður fyrir kyn­ferðis­legu of­beldi bregðist við með því að trúa öllu því sem um það er sagt,“ segir Hulda. Tinna glímdi við öll ein­kenni á­falla­streitu­röskunar en það tók hana níu ár að fá rétta greiningu. „Tæp­lega tveimur mánuðum fyrir and­látið fékk hún loks greiningu en hún náði aldrei að vinna í henni.“

Of­beldið hafði gríðar­leg á­hrif á líf Tinnu jafn­vel löngu eftir að hún var farin að vinna í sínum málum og líða betur. „Hún lenti reglu­lega í því að vel meinandi fólk benti henni á að verið væri að biðja um myndir af henni á síðum á borð við Chansluts,“ segir Hulda. „Það ýfði upp sárin í hvert skipti og henni fannst ekki gaman að vita að hún væri eitt­hvað sem rætt væri um í þessum heimi.“ Helst hefði hún viljað sleppa við allar til­kynningar um slíkt.

„Ef ég tek af mér nektar­mynd og sendi ein­hverjum þá er ég bara að gefa honum leyfi til að sjá hana."

Viðhorfsbreyting nauðsynleg

Hulda kveðst vera viss um að Tinna hefði haldið á­fram að berjast fyrir mál­efnum þeirra sem lenda í of­beldi af þessu tagi. Hún telur einnig löngu tíma­bært að við­horfs­breyting verði á því hvernig litið er á nektar­myndir í sam­fé­laginu. Vanda­málið séu ekki myndirnar heldur við­brögðin við þeim.

„Ef ég tek af mér nektar­mynd og sendi ein­hverjum þá er ég bara að gefa honum leyfi til að sjá hana. Líkt og ef ég myndi sam­þykkja að stunda kyn­líf með þeirra mann­eskju. Ég er ekki þar með að gefa vina­hópnum færi á mér.“ Aðal­málið sé að virða mörk og taka á­byrgð á því að slíkar myndir séu ekki mis­notaðar.

„Við þurfum nefni­lega ekki bara að kenna fólki að senda ekki af sér nektar­myndir, við þurfum líka að kenna fólki að ef það fær slíkar myndir í hendurnar þá ber það á­byrgð á því að þær séu ekki mis­notaðar,“ skrifaði Tinna mánuði áður en hún lést.

Ofan­greint við­tal er hluti af frétta­skýringu um staf­rænt kyn­ferðis­of­beldi og barna­níð.