Svo virðist sem dagar hins stóra lúxusbíls Lincoln Continental séu brátt taldir eftir aðeins 3 ár á markaði af nýrri og glæstri kynslóð hans. Lincoln er lúxusbílamerki Ford og Ford ætlar að rýma til í verksmiðju sinni í Flat Rock í Detroit, þar sem Lincoln Continental og Ford Mustang eru framleiddir, fyrir tveimur nýjum rafmagnsbílum. Líklega verður fyrir vikið hætt að framleiða Lincoln Continental árið 2021. Lincoln Continental hefur verið á dauðalista Ford frá því í fyrra eftir að Ford lýsti því yfir að líklega myndi þessi síðasta kynslóð hans verða sú síðasta. 

Hjá Ford kemur reyndar til greina að halda áfram framleiðslu Lincoln Continental í Kína þar sem mikill markaður er fyrir bílinn stóra, en að hann yrði líka fluttur til annarra landa. Sala Lincoln Continental hefur verið fremur slök í Bandaríkjunum á síðustu tveimur árum, en um 12.000 bílar seldust árið 2017 og tæplega 9.000 bílar í fyrra. Líklega er þar að finna stærstu ástæðuna fyrir yfirvofandi endalokum bílsins.