Rapparinn Emmsjé Gauti sendir óháða borgarfulltrúanum Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur tóninn á Twitter í dag þar sem hann virðist ekki síst óhress með að hafa fengið póst frá Sveinbjörgu frá netfanginu reykjavikerokkar@gmail.com. Í tölvupóstinum falaðist hún eftir leyfi hjá honum fyrir notkun á slagorðinu „Reykjavík er okkar“ fyrir nýtt framboð sitt í borginni. 

„Ég var ekki efins heldur handviss þegar ég hringdi í þig í kjölfar þess að þú tilkynntir bókaranum mínum að þú ætlaðir fulla ferð með slagorðið Reykjavík er okkar. Fyrrum stjórmálasaga þín er valdur þess að ég vil enga tengingu við þitt framboð. DV, Emmsjé er skrifað Emmsjé,“ tístir Gauti og birtir skjáskot af umleitun Sveinbjargar Birnu með.

„Málið var að ég var að hugsa um að fara fram með framboð sem héti Reykjavík er okkar,“ segir Sveinbjörg Birna í samtali við Fréttablaðið. „Ég hafði samband við hann og við ræddum þetta og hann bað mig vinsamlegast um að gera það ekki.“

Sveinbjörg segist hafa ákveðið að láta „Reykjavík er okkar“ því eiga sig og framboð hennar til borgarstjórnar heitir nú Borgin okkar – Reykjavík. „Þannig að ég átta mig ekki alveg á þessu og held að þetta hljóti að vera einhver misskilningur.“

Draumur að lenda í deilu við þekktan tónlistarmann

Emmsjé Gauti vildi ekki tjá sig frekar um málið þegar Fréttablaðið hafði samband við hann, sagði Twitter-færsluna segja allt sem hann vildi segja og hann hefði engu við hana að bæta.

„Ég sagði við hann að það væri draumur hvers stjórnmálamanns að þekktur tónlistarmaður færi að argast út í nafnið það myndi þá allavegana fá mikla athygli,“ segir Sveinbjörg Birna sem óneitanlega kann þá list að vekja á sér athygli.

„Þetta var samt alveg óvart eins og svo margt annað,“ segir hún og hvað netfangið reykjavikerokkar@gmail.com varði þá er búið að taka það úr sambandi.

„Þetta er nú stormur í vatnsglasi. Ég opnaði þetta netfang nú bara eiginlega óvart þegar þetta var á frumstigi en er núna komin með borginokkarreykjavik@gmail.com.

Ég var búin líka búin að stofna Facebook-síðu sem hét „Reykjavík er okkar“ en ég eyddi henni í síðustu viku.“

Sveinbjörg Birna segir nýja framboðið fá kennitölu í dag en það hafi dregist vegna þess „að ég þurfti að fá samþykki frá eigendum fyrirtækisins Borgin okkar, sem á Hótel Borg.“ Það reyndist auðsótt og Borgin okkar – Reykjavík ætti því að fá kennitölu í dag.