„Það er búið að hafa af mér æruna fyrir að hafa stolið eigin sög,“ segir Emil Thorarensen, íbúi á Eskifirði. Emil var ákærður í janúar af lögreglu á Austurlandi fyrir að hafa tekið sög síðasta haust, sög sem Emil segir að hafi upphaflega verið í sinni eigu. Málið var látið niður falla í Héraðsdómi Austurlands nýverið. Lögmaður hans staðfesti frásögnina.

Um er að ræða veltisög af gerðinni DeWalt. Forsaga málsins er löng en sögin var keypt þegar Kárahnjúkavirkjun var í smíðum. „Ég átti fyrirtæki ásamt góðum vini mínum. Við fórum að byggja hús úr brasilískum harðvið. Þegar álverið kom á Reyðarfirði þá hugsuðu margir sér gott til glóðarinnar, þar á meðal ég. Þetta fyrirtæki átti ýmislegt, þar á meðal þessa DeWalt veltisög,“ segir Emil.

Fór allt á hausinn í hruninu

„Í hruninu 2008 þá fór allt á hausinn. Ég þurfti að greiða 10 milljónir í persónulegar ábyrgðir.“ Emil vildi ekki tjá sig sérstaklega um hvernig sögin endaði í hans persónulegu eigu, en þrotabúi fyrirtækisins var slitið fyrir allmörgum árum. „Sögin hún dagaði uppi hjá mér. Ein sög var ekki mál málanna.“

Svo gerðist það að Emil fór í fyrirtækjarekstur með öðrum manni. „Við keyptum húsnæði sem þurfti að lappa upp á. Ég lánaði honum sögina.“ Svo gerðist ekki neitt að sögn Emils. „Ég fór að spá í hvar sögin væri, mundi það ekkert. Nema það að maður á Stöðvarfirði sagði mér hvar sögin væri, hún væri í gámi. Ég spurði son hans hvort sögin væri þarna. Hann þurfti að spyrja mömmu sína. Mamma hans, sem er þjófur í eðli sínu, sagði að þau ættu sögina.“ Endaði það með því að Emil fór og sótti sögina. „Gámurinn var ólæstur. Ég braust ekkert inn. Næsta sem ég veit að ég er ákærður fyrir að stela eigin sög.“

Getur verið að hún hafi ekki vitað betur?

„Ég vissi betur,“ segir Emil. Óttast hann að umræða um þetta mál hafi skaðað orðspor hans fyrir austan. „Ég er orðinn 67 ára gamall og hefði aldrei dottið í hug að gerast þjófur,“ segir hann. „Það er ekki gaman að vera ákærður.“