Em­bættis­menn hjá höfuð­stöðvum varnar­mála­ráðu­neytis Banda­ríkjanna, Pentagon, eru sagðir hafa á­hyggjur af hegðun og full­yrðingum Donald Trump Banda­ríkja­for­seta í kjöl­far stjórn­lausra ó­eirða víðs vegar í Banda­ríkjunum vegna dauða Geor­ge Floyd. Mót­mælin stig­magnast með degi hverjum þar sem mót­mælendur kalla eftir rétt­læti.

Trump sagði í á­varpi sínu til þjóðarinnar í gær að hann myndi senda her­menn til að ná stjórn á mót­mælunum í þeim til­vikum sem ríkis- og borgar­stjórar gátu það ekki. Til þess myndi hann nýta lög frá árinu 1807 sem leyfa for­setanum að senda banda­ríska her­menn til að ná stjórn á ó­reiðum á banda­rísku land­svæði.

Hópur fólks mót­mælti frið­sam­lega fyrir utan Hvíta húsið í gær en þeim var tvístrað fyrir á­varp for­setans með tára­gasi og gúmmí­kúlum svo Trump gæti farið í mynda­töku við St. John‘s kirkjuna í ná­grenninu og hefur hann verið harðlega gagnrýndur fyrir vikið.

Ástandið ekki boðlegt til lengdar

CNN hefur það eftir heimildar­mönnum innan varnar­mála­ráðu­neytisins að em­bættis­menn hafi verið ó­ró­legir jafn­vel áður en Trump hét til­komu hersins. Þeir reyna nú að sann­færa for­setann um að á­standið sé ekki komið á það stig að senda þurfi her­menn á svæðið og það sé ekki gert fyrr en ríkis­stjórar kalli eftir því.

Þá hafa með­limir Þjóð­varðar­liðsins lýst yfir á­hyggjum af á­standinu en um sau­tján þúsund með­limir hafa verið kallaðir út í 29 ríkjum með leyfi ríkis­stjóranna. Aðstoðarforingi Þjóð­varð­liðsins í Georgíu, Thomas Car­d­en, sagði á sunnu­daginn að þrátt fyrir að á­standið hafi kallað á komu Þjóð­varðar­liðsins sé ljóst að ekki sé hægt að sætta sig við það til lengdar.

Líkt og áður hefur verið greint frá hefur útgöngubann verið sett á í tugum borga í Bandaríkjunum en þrátt fyrir það halda óeirðirnar áfram. Fjölmargir hafa særst í átökum milli yfirvalda og mótmælenda og hafa nokkrir látið lífið.