Elva Hrönn Hjartardóttir sérfræðingur á þróunarsviði VR tilkynnti í kvöld að hún býður sig fram til formanns VR. Hún býður þannig fram gegn sitjandi formanni, Ragnari Þór Ingólfssyni.
„Verkalýðsmál hafa alltaf verið mér hugleikin en ég hóf vegferð mína í VR sem trúnaðarmaður árið 2013 og sat jafnframt í trúnaðarráði 2014-2015, auk þess var ég varamaður í stjórn Landssambands íslenzkra verzlunarmanna árið 2015. Ég hef verið formaður alþjóðanefndar ASÍ síðastliðin tvö ár,“ segir Elva en auk þess hefur hún um árabil verið virk í starfi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.
Í samtali við Fréttablaðið segist hún vera búin að segja sig úr öllu starfi sem tengist flokknum og að hún sé ekki lengur virkur þátttakandi.
„Hagsmunabarátta launafólks nær þvert yfir pólitíska skalann og í VR er um 40.000 félagsfólk sem kemur úr öllum áttum og formaður VR þarf að geta unnið fyrir allt félagsfólkið, ekki bara hluta af því,“ segir Elva.
Brennur fyrir hagsmunastarfi
Í tilkynningu hennar kemur fram að hún brenni fyrir hagsmunastarfi í þágu launafólks og að með framboðinu vilji hún gefa félagsfólki tækifæri á að velja sér formann.
„Ég legg áherslu á að þau mikilvægu mál sem núverandi formaður VR hefur haldið uppi, líkt og húsnæðis-og lífeyrismál og kjör hinna lægst launuðu, fái áfram brautargengi. Ég vil þó beita mér fyrir hagsmunum félagsfólks á breiðari grundvelli þar sem fjölbreytileikinn í félaginu og tekjudreifing er mikil og það má ekki gleyma því í hagsmunabaráttunni.
Ég legg áherslu á jafnréttis- og mannréttindamál, umhverfismál, starfsmenntamál, atvinnulýðræði, málefni ungs fólks og önnur málefni sem varða félagsfólk VR og samfélagið allt, enda á stærsta stéttarfélag á Íslandi ekki að láta sitt eftir liggja þegar kemur að hvers kyns málefnum sem hafa áhrif á félagsfólk þess.“
Nánari upplýsingar um framboð Elvu er hægt að finna hér að neðan í tilkynningu hennar á Facebook.