Elva Hrönn Hjartar­dóttir sér­fræðingur á þróunar­sviði VR til­kynnti í kvöld að hún býður sig fram til formanns VR. Hún býður þannig fram gegn sitjandi for­manni, Ragnari Þór Ingólfs­syni.

„Verka­lýðs­mál hafa alltaf verið mér hug­leikin en ég hóf veg­ferð mína í VR sem trúnaðar­maður árið 2013 og sat jafn­framt í trúnaðar­ráði 2014-2015, auk þess var ég vara­maður í stjórn Lands­sam­bands ís­lenzkra verzlunar­manna árið 2015. Ég hef verið for­maður al­þjóða­nefndar ASÍ síðast­liðin tvö ár,“ segir Elva en auk þess hefur hún um ára­bil verið virk í starfi Vinstri hreyfingarinnar græns fram­boðs.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segist hún vera búin að segja sig úr öllu starfi sem tengist flokknum og að hún sé ekki lengur virkur þátt­takandi.

„Hags­muna­bar­átta launa­fólks nær þvert yfir pólitíska skalann og í VR er um 40.000 fé­lags­fólk sem kemur úr öllum áttum og for­maður VR þarf að geta unnið fyrir allt fé­lags­fólkið, ekki bara hluta af því,“ segir Elva.

Brennur fyrir hagsmunastarfi

Í til­kynningu hennar kemur fram að hún brenni fyrir hags­muna­starfi í þágu launa­fólks og að með fram­boðinu vilji hún gefa fé­lags­fólki tæki­færi á að velja sér for­mann.

„Ég legg á­herslu á að þau mikil­vægu mál sem nú­verandi for­maður VR hefur haldið uppi, líkt og hús­næðis-og líf­eyris­mál og kjör hinna lægst launuðu, fái á­fram brautar­gengi. Ég vil þó beita mér fyrir hags­munum fé­lags­fólks á breiðari grund­velli þar sem fjöl­breyti­leikinn í fé­laginu og tekju­dreifing er mikil og það má ekki gleyma því í hags­muna­bar­áttunni.

Ég legg á­herslu á jafn­réttis- og mann­réttinda­mál, um­hverfis­mál, starfs­mennta­mál, at­vinnu­lýð­ræði, mál­efni ungs fólks og önnur mál­efni sem varða fé­lags­fólk VR og sam­fé­lagið allt, enda á stærsta stéttar­fé­lag á Ís­landi ekki að láta sitt eftir liggja þegar kemur að hvers kyns mál­efnum sem hafa á­hrif á fé­lags­fólk þess.“

Nánari upp­lýsingar um fram­boð Elvu er hægt að finna hér að neðan í til­kynningu hennar á Face­book.