Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók ökumann sem er grunaður um ölvun við akstur eftir eftirför í Grafarvogi klukkan hálf eitt í nótt. Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og þá hófst eftirför. Skömmu síðar stöðvaði ökumaðurinn og reyndi að hlaupa frá vettvangi en þá var hann handtekinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Lögregla handtók annan ökumann sem er líka grunaður um ölvun við akstur tæplega klukkustund síðar í Árbæ. Tilkynnt hafði verið um umferðaróhapp, en bíl hafði verið ekið á þrjá aðra bíla og svo af vettvangi. Bíllinn var stöðvaður skömmu síðar og þegar ökumaðurinn steig út úr bílnum rann bíll hans á lögreglubílinn. Ökumaðurinn var vistaður í fangageymslu.

Rétt eftir hálf þrjú í nótt var tilkynnt um líkamsárás í verslun í Kópavogi. Þrír menn höfðu ráðist á starfsmann og haft á brott með sér vörur úr versluninni. Ekkert er vitað hvort starfmaðurinn hafi meiðst en málið er í rannsókn.

Fimm ökumenn í viðbót voru teknir fyrir akstur undir áhrifum á ýmsum stöðum í borginni í gærkvöldi og nótt. Einn þeirra hefur ítrekað ekið sviptur ökuréttindum og er einnig grunaður um þjófnað úr verslun, einn er grunaður um vörslu fíkniefna og einn hafði ökuskírteini ekki meðferðis.

Auk þess var einn annar ökumaður stöðvaður í Hlíðahverfi um tíu í gærkvöldi, en sá reyndist hafa verið sviptur ökuréttindum.