Nánast öll her­bergi eru upp­bókuð á Hótel Héraði þessa vikuna og sömu sögu er að segja á tjald­svæðinu á Egils­stöðum en spáð er blíð­viðri á Austur­landi út vikuna. Á mið­viku­daginn er til að mynda spáð sól og allt að 25 stiga hita á Egils­stöðum og ljóst er að fjöl­margir ætla að gera sér ferð austur til að njóta veður­blíðunnar.

Heiður Vig­fús­dóttir, eig­andi ferða­þjónustu­fyrir­tækisins Austur­farar sem rekur tjald­svæðið á Egils­stöðum, segir mikla um­ferð hafa verið um tjald­svæðið undan­farna daga.

„Já, það er náttúr­lega búið að vera síðustu daga og stefnir í að það verði nóg að gera. En við erum með stórt tjald­svæði. Það eru tak­mörkuð stæði í raf­magn sem fólk er kannski svo­lítið að bítast um í bókunar­kerfinu. En við erum með stórt svæði og þeir sem þurfa ekki raf­magn, þeir ættu alveg að fá pláss.“

Heiður segir að búið sé að taka upp nýtt raf­rænt bókunar­kerfi hjá tjald­svæðinu svo fólk getur nú bókað og greitt fyrir pláss á netinu. Hún býst þó við því að það taki ein­hvern tíma fyrir fólk að venjast kerfinu enda er úti­legu­menning Ís­lendinga nokkuð fast­mótuð.

„Þetta hefur náttúr­lega alltaf verið þannig að fólk er að hringja á undan sér og það hefur aldrei verið auð­velt að taka frá pláss fyrir fólk. Um leið og það næst að vinda ofan af þessari ís­lensku tjald­menningu og fólk lærir að skilja bókunar­kerfið þá á þetta að vera öllum til bóta.“

Þannig það gengur kannski ekkert eins og í gamla daga þegar maður mætti bara á staðinn og byrjaði að tjalda?

„Nei, þetta hefur svo­lítið verið að breytast. Þetta þekkist mjög víða er­lendis að það sé bókað fyrir fram á tjald­svæði og það verður svona erfitt fyrir okkur Ís­lendingana fyrsta sumarið og kannski næsta að venjast þessu en ég held að þegar fólk er komið inn á þetta þá sjái það að þetta er mjög þægi­legt fyrir alla,“ segir Heiður og bætir við að kerfið hafi að hluta til verið tekið upp af sótt­varnar­að­stæðum til að minnka snerti­fleti í CO­VID far­aldrinum.

En eru ekki Aust­firðingar bara glaðir með veðrið?

„Jú heldur betur, við fengum svo­lítið kalt vor þannig að það voru allir mjög til­búnir í þetta góða veður. Þetta er búið að vera ýmist í ökkla eða eyra þannig við eigum alveg inni að fá smá sólar­landa­blíðu. Það verður ansi heitt á morgun, ég veit ekki hvort það verður einum of en við förum nú ekki að kvarta yfir háum hita­tölum,“ segir Heiður að lokum.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá bókunar­skrif­stofu Icelandair Hot­els eru nánast öll her­bergi upp­bókuð á Hótel Héraði þessa vikuna og mjög mikið er bókað út sumarið. Til­vonandi hótel­gestir eru jafnt Ís­lendingar sem út­lendingar en sam­kvæmt bókunar­full­trúa hefur ekki sést mikill munur á bókunum í kjöl­far af­léttingu sam­komu­tak­markana.

Tjaldstæðið verður líklega fullt.
Mynd/Aðsend