Elstu samtengdu tvíburar heims, þeir Ronnie og Donnie Galyon, eru látnir, 68 ára að aldri. Þeir létust á líknardeild í Dayton, Ohio þann 4. júlí síðastliðinn. Greint er frá þessu í tímaritinu Time.

Ekki kemur fram hvað olli dauða þeirra en samkvæmt WHIO voru þeir með slæma liðagigt.

Samtengdir tvíburar fæðast í einni af hverjum 200.000 fæðingum. Stór hluti deyja við fæðingu og er sjaldgæft að þeir lifi lengur en nokkur ár. Til eru fleiri tilfelli af kvenkyns tvíburum, eða um 70 prósent af öllum tilfellum.

Því eru miðaldra karlkyns samtengdir tvíburar alveg gríðarlega sjaldgæfir og eru Ronnie og Donnie elstu samtengdu tvíburar frá upphafi skráninga. Fyrra metið áttu tvíburarnir Chang og Eng Bunker frá Taílandi, sem létust 62 ára gamlir, en frá þeim kemur orðið Síamstvíburar.

Síamstvíburarnir Chang og Eng Bunker.

Ronnie og Donnie bjuggu með bróður sínum, Jim og eiginkonu hans, Mary í borginni Beavercreek síðustu árin.

Þeir voru samgrónir við kviðinn og deildu kynfærum, þvagfærum, þörmum en voru hvor með sinn eigin maga, eigið hjarta, handleggi og fótleggi. Erfitt var fyrir þá að beygja búkinn sem þeir deildu til hliðar og þurftu þeir því að vinna mikið saman. Báðir voru þeir rétthentir en lærðu að reima skó og skera brauð, þannig að annar notaði vinstri og hinn hægri hendina.

Bræðurnir voru með geðfötlun. Faðir þeirra sá einn um að ala þá upp eftir að móðir þeirra yfirgaf fjölskylduna. Sjúkrareikningarnir voru gríðarlega háir fyrstu árin og ákvað þá faðir þeirra að ferðast með strákana um Kanada, Bandaríkin og Mexíkó í „World of wonder“ sirkusnum í eigu umboðsmannsins Ward Hall.

Ronnie og Donnie á tveggja ára afmælisdegi sínum.
Fréttablaðið/Getty images

Hér fyrir neðan má sjá viðtal við bræðurna frá árinu 2012 og umfjöllun frá því að þeir voru yngri.