„Sú elsta sem hefur komið með okkur nýlega var hátt í 98 ára gömul og naut sín einstaklega vel í faðmi fjölskyldunnar og fékk stól og teppi með í ferðina á svæðið svo færi vel um hana,“ segir Þórunn Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heli Austria, sem býður þyrluflug á gosstöðvarnar við Fagradalsfjall.

Helia Austria er eitt nokkurra þyrlufyrirtækja sem býður flug á gosstöðvarnar. Flogið er frá Krýsuvíkurrétt við vegamót Krýsuvíkuvegar og Suðurstrandarvegar. Verðið er fimmtíu þúsund krónur.

Þórunn segir bókað fram í tímann í þyrluflugið. Fyrirtækið setji í forgang fólk sem eigi erfiðast með að koma sér sjálft á svæðið.

„Við erum að reyna núna að fara með eldri borgara og fatlaða og við erum að taka hjartadeildina á Landspítalanum,“ segir Þórunn.

„Þessi hópur hefur verið virkilega einangraður í baráttunni við COVID og því tel ég það þeirra forréttindi að fá að njóta þess að komast á svæðið vel og örugglega. Fólk bundið við hjólastóla, alvarlega veikir og fjölskyldur þeirra eiga því góðan aðgang að okkur og ég hvet sem flesta sem langar en telja sig ekki nógu hrausta – að heyra í okkur og sjá hvað við getum gert fyrir þau,“ segir Þórunn.

Að sögn Þórunnar er fólk í þessum hópi þakklátt. „Þetta er fólkið sem á erfiðast með að panta í gegn um tölvupóst þannig að við höfum eytt aðeins meiri tíma í að sinna því frekar. Að sama skapi reynum við að forðast að blanda alltof mikið saman í vélarnar,“ útskýrir hún.

Þórunn segir fjölmargar fyrirspurnir hafa borist að utan. Fólk setji ekki fyrir sig þótt gosinu gæti verið lokið er það kemur til landsins, slíkt sé aðdráttarafl svæðisins.

„Ég hef orðið vitni að fimm eldgosum í mínum þyrlurekstri og fólk heldur alveg áfram að koma og staðirnir halda áfram að vera vinsælir þótt það sé löngu slökknað í öllu,“ segir hún.

Eins og staðan sé núna þarf að stíga varlega til jarðar, ítrekar Þórunn.

„Við þurfum að fara vel með þessa lukku sem gosið í raun og veru er. Þetta er náttúrlega besta markaðsherferð sem Ísland hefði getað farið í á þessum tíma og ódýrasta – hún kostar ekki neitt,“ segir Þórunn