Hinn 82 ára Stephen Breyer, dómari við Hæsta­rétt Banda­ríkjanna, hyggst ekki stíga til hliðar sem dómari við réttinn en þó nokkrir hafa síðast­liðna mánuði reynt að sann­færa Breyer um að hverfa frá. Breyer sagði við CNN í gær á­stæðuna helst vera að heilsa hans er góð og hann beri skyldu til réttarins.

Breyer, sem var skipaður árið 1994 af Bill Clin­ton og er næstum áratugi eldri en næst elsti dómarinn við réttinn, hefur ekki tjáð sig um málið opin­ber­lega til þessa en í við­tali við CNN sagðist hann vera sáttur við hlut­skipti sín sem lengst sitjandi frjáls­lyndi dómarinn við réttinn.

Vilja tryggja sætið

Dómarar við Hæsta­rétt Banda­ríkjanna eru ævi­skipaðir og þegar eitt af níu sætum við réttinn losna, ýmist þegar dómarar falla frá eða segja af sér, þarf sitjandi for­seti Banda­ríkjanna að til­nefna nýjan dómara sem öldunga­deild Banda­ríkja­þings síðan stað­festir.

Eftir að Ruth Bader Gins­burg féll frá í fyrra, 87 ára að aldri, opnaðist sæti við réttinn og þrátt fyrir mót­mæli Demó­krata náðu Repúblikanar, með Trump í farar­broddi, að skipa hina í­halds­sömu Amy Con­ey Bar­rett í sæti Gins­burg. Nú eru því sex dómarar við Hæsta­rétt af í­halds­samari armi réttarins, á móti þremur af hinum frjáls­lyndari.

Demó­kratar og aðrir frjáls­lyndari arminum hafa í ljósi þessa reynt að hvetja Breyer til að stíga til hliðar meðan Joe Biden Banda­ríkja­for­seti er við völd svo hægt sé að tryggja að Demó­kratar missi ekki enn eitt sætið.