Hinn 78 ára kóreski leikari O Yeong-su, sem sló í gegn í þáttunum Squid Game á Netflix, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot.

BBC greinir frá.

O er gert að sök að hafa káfað á konu árið 2017 samkvæmt saksóknurum í Suður-Kóreu. Samkvæmt fjölmiðlum þar ytra neitar O alfarið sök í málinu.

Samkvæmt BBC var O fyrst ásakaður vegna málsins í desember í fyrra og var málinu lokað í apríl án ákæru. Nú hafi málið hins vegar verið opnað að nýju að beiðni konunnar.

O hreppti Golden Globe verðlaun fyrir frammistöðu sína í þáttunum sem besti leikari í aukahlutverki og varð þar með fyrsti Suður-Kóreski leikarinn til að fá þau verðlaun.

Squid Game er vinsælasta sjónvarpsþáttaröð sem Netflix hefur framleitt en þættirnir vöktu gríðarlega athygli út um allan heim.