Þorgrímur Kári Snævarr
Föstudagur 15. júlí 2022
05.00 GMT

„Í dag kynnum við fyrir mann­kyninu byltingar­kennda nýja sýn á al­heiminn úr James Webb-geim­sjón­aukanum – sjón sem heims­byggðin hefur aldrei séð fyrr.“ Þetta sagði Bill Nel­son, for­stjóri Geim­ferða­stofnunar Banda­ríkjanna (NASA), við birtingu fyrstu myndanna úr James Webb-geim­sjón­aukanum (JWST) á mánu­daginn. Birting myndanna hefur verið hyllt sem „nýtt tíma­bil í stjörnu­fræðinni“.

„Þessar myndir, þar á meðal dýpsta inn­rauða sýn á al­heiminn sem hefur nokkru sinni verið tekin, sýna okkur hvernig Webb mun hjálpa okkur að finna svör við spurningum sem við höfum ekki einu sinni enn vit á að spyrja; spurningum sem munu hjálpa okkur að skilja betur al­heiminn okkar og hlut­verk mann­kynsins í honum.“

Langtum öflugri en Hubb­le

James Webb-geim­sjón­aukinn er hannaður sem arf­taki Hubb­le-geim­sjón­aukans, sem hefur verið á spor­baug frá árinu 1990, og sjón hans á að vera um hundrað sinnum næmari. Eftir nokkurra ára tafir skaut NASA nýja sjón­aukanum loks út í geim á jóla­dag í fyrra.

Vegna hinnar gríðar­legu vega­lengdar sem sjón­aukinn sér yfir, er hann jafn­framt í raun að rýna aftur í for­tíðina. Sjón­aukinn nemur ljós frá vetrar­brautum sem eru í milljarða ljós­ára fjar­lægð, og þar sem ljós ferðast að­eins á til­teknum hraða er um að ræða ljós aftur úr grárri forn­eskju. Vonir standa til þess að hægt verði að taka myndir nánast frá upp­hafi al­heimsins.

Þegar ljósið ferðast yfir svo stjarn­fræði­legar vega­lengdir lengist bylgju­lengd þess smám saman og færist nær inn­rauðu ljósi. Þetta má skýra með vísan til af­stæðis­kenningar Ein­steins og út­þenslu al­heimsins, sem felur í sér að ljósið sem ferðast um rýmið lengist einnig. Þar sem ljósið er orðið inn­rautt þegar það kemur til jarðarinnar þarf kraft­mikinn sjón­auka með inn­rauða linsu til að sjá fyrstu stjörnurnar og fyrstu vetrar­brautirnar. James Webb-sjón­aukinn er ein­mitt búinn slíkum búnaði.


„Fyrir­heit Webb snúast ekki um það sem við vitum að við munum upp­götva, heldur um það sem við skiljum ekki enn eða getum enn ekki með­tekið um al­heiminn okkar“

-Bill Nelson, forstjóri NASA


Stefáns-kvintettinn. Hópur vetrarbrauta í 290 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðu í stjörnumerkinu Pegasusi.
Mynd/NASA/ESA

Gætum fundið merki um líf

Á fyrstu myndinni sem birt var úr sjón­aukanum sjást þúsundir vetrar­brauta í klasanum SMACS 0723 eins og þær litu út fyrir 4,6 milljörðum ára. Á öðrum myndum má sjá Stefáns-kvintettinn, vetrar­brautaklasa sem mann­fólk upp­götvaði fyrst árið 1877, Kjalar­þokuna, stjörnu­þoku með fjölda stjarna sem hver um sig er stærri en sólin, og Suður­hring­þokuna, gríðar­stórt og stækkandi lag af gasi í kringum deyjandi stjörnu.

Ein merkasta upp­götvunin sem gerð var með þessum fyrstu myndum úr JWST eru af gas­risanum WASP-96b. Um er að ræða fjar­reiki­stjörnu í 1.150 ljós­ára fjar­lægð frá jörðinni, sem er á spor­baug í kringum stjörnu í stjörnu­merkinu Fönix. Ljós­ferillinn frá sól­kerfinu sem numinn er í sjón­aukanum stað­festir að vatn og ský er að finna í and­rúms­lofti plánetunnar. Plánetan er of heit og of ná­lægt stjörnu sól­kerfisins til að vera byggi­leg, en talið er að sams konar skoðun á öðrum fjar­reiki­stjörnum muni skipta sköpum í leit bæði að byggi­legum plánetum og að mögu­legu lífi handan jarðarinnar. Ef líf er að finna á öðrum plánetum er talið að hægt verði að greina efna­fræði­leg merki þess, til dæmis út­öndun kol­tví­sýrings eða myndun súr­efnis fyrir til­stilli ljós­til­lífunar.

Auk þess að sýna okkur hluti ó­endan­lega langt í burtu standa vonir til þess að sjón­aukinn geti kennt okkur meira um okkar nánasta um­hverfi. Talið er að með því að greina hala­stjörnur og aðra ís­hluti á endi­mörkum sól­kerfisins okkar kunni að finnast vís­bendingar um upp­runa lífs á jörðinni.

„Fyrir­heit Webb snúast ekki um það sem við vitum að við munum upp­götva,“ sagði Bill Nel­son, „heldur um það sem við skiljum ekki enn eða getum enn ekki með­tekið um al­heiminn okkar. Við erum á mörkum sannar­lega spennandi tíma upp­götvana, upp­götvana hluta sem við höfum aldrei fyrr séð eða í­myndað okkur.“

Fréttablaðið/Tómas

Hitt og þetta um sjón­aukann

  • Þver­mál aðal­spegils James Webb-geim­sjón­aukans er um 6,5 metrar.
  • Sjón­aukinn vegur um 6.200 kíló. Aðal­spegillinn einn og sér vegur 705 kíló og hver hluti hans vegur 20,1 kíló.
  • Spegillinn er aðal­lega gerður úr beryllíni en jafn­framt þakinn gull­plötum. Gull­lagið nemur alls um 48,25 grömmum, sem er svipað og massi golf­kúlu.
  • Sjón­aukinn er á spor­baug um 1,5 milljónir kíló­metra frá jörðu.
Athugasemdir