Elon Musk, ríkasti maður heims, er maður ársins að mati bandaríska tímaritsins Time. Að sögn tímaritsins er árið sem nú er að ljúka ár Musk. Geimfyrirtæki hans SpaceX skrifaði í apríl undir samkomulag við bandarísku geimferðastofnunina NASA um að koma geimförum á tunglið í fyrsta sinn síðan 1972.

Frægðarsól hans rís sífellt hærra, í maí stýrði hann skemmtiþættinum Saturday Night Life og tíst hans geta valdið miklum hræringum á hlutabréfamarkaði. Í október skrifaði bílaframleiðandinn Tesla undir samkomulag við bílaleiguna Hertz um kaup á hundrað þúsund Teslum. Það er því óhætt að segja að Musk hafi átt gott ár.

Ekki hefur árið þó verið eintómur dans á rósum. Fyrirtæki hans hafa verið sökuð um að líta fram hjá ásökunum starfsfólks um kynferðislega áreitni og bágbornar vinnuaðstæður. Í október fyrirskipaði alríkisdómstóll Tesla að borga 137 milljónir dollara til starfsmanns sem sakaði fyrirtækið um að taka ábendingar um kynþáttaníð ekki alvarlega og hefur það verið sektað fyrir fjölda reglugerðarbrota. Bandarísk alríkisyfirvöld rannsaka nú sjálfkeyribúnað Tesla en fjölmörg dæmi eru um árekstra þar sem búnaðurinn kemur við sögu.

„Hann er húmanisti - ekki á þann hátt að vera góð manneskja, þar sem hann er það ekki. Hann vill lifa að eilífu fyrir afrek sín og hann er happafengur fyrir mannkynið þar sem hann álítur afrek vera það sem er gott fyrir mannkynið. Hann er gráðugur í dýrð. Peningar eru fyrir honum tæki en ekki markmið. Hver metur Thomas Edison út frá því hvort uppfinningar hans skiluðu hagnaði?“

Musk prýðir for­síðu Time.
Mynd/Time