Elon Musk hefur ákveðið að hætta sem forstjóri Twitter í kjölfar könnunar sem hann birti sjálfur á samfélagsmiðlinum þar sem hann bað notendur að kjósa um það hvort hann ætti að segja af sér eða ekki.

Í fyrstu virtist Musk ætla að malda í móinn og heyrðist lítið frá honum eftir að niðurstöður urðu ljósar á mánudag en hann hefur nú gefið út að hann muni hætta sem forstjóri „um leið og ég finn einhvern sem er nógu mikill kjáni til þess að taka við starfinu.“

Þar sem Elon Musk er meiri­hluta­eig­andi sam­fé­lags­miðilsins getur enginn neytt hann til að stíga til hliðar, en ó­út­reiknan­leg hegðun hans undan­farnar vikur hefur leitt til þess að jafn­vel hans nánustu bak­hjarlar hafa slitið tengsl við hann.

Könnunin sem Musk birti endaði með því að 57,5 prósent þeirra sem tóku þátt sögðu að hann ætti að segja starfi sínu lausu en 42,5 prósent vildu hann áfram sem forstjóra.

Elon Musk eignaðist Twitter í október og hefur undarleg hegðun hans í kringum yfirtöku fyrirtækisins orsakað það að margir helstu auglýsendur þess hafa sagt sig frá fyrirtækinu.