Elon Musk, ríkasti maður heims og stofnandi SpaceX, er sagður hafa berað sig fyrir framan flugfreyju sem starfar fyrir fyrirtækið og boðið henni að stunda við sig kynlíf. Flugfreyjan sendi inn formlega kvörtun vegna kynferðisbrotsins og samkvæmt fréttamiðlinum Insider borgaði SpaceX 250 þúsund dollara til hennar árið 2018 vegna málsins.
Flugfreyjan starfaði sem verktaki í áhöfn flugvélaflota fyrirtækisins. Hún sakaði Musk um að hafa berað lim sinn í fullri reisn og nuddað á henni lærin án samþykkis. Þá hafi hann boðist til að kaupa handa henni hest í skiptum fyrir kynferðislegt nudd. Atvikið á að hafa átt sér stað árið 2016.
Samkvæmt gögnum málsins var flugfreyjan hvött til að gerast löggiltur nuddari til að geta nuddað Musk í flugferðum. Atvikið átti sér stað í miðju nuddi í einkaklefa flugvélar í eigu Musk.
Insider gerði tilraun til að ná tali af Musk vegna málsins en hann kvaðst þurfa meiri tíma til svara. Hann sagði margt enn eiga eftir að koma fram í málinu. Þá sagði hann einnig að frásögn fréttamiðilsins væri pólitísk árás.
„Ef ég væri þess líklegur að áreita kynferðislega þá er ólíklegt að þetta væri í fyrsta sinn sem slíkt kæmi í ljós á mínum þrjátíu ára ferli ,“ skrifar Musk í svari við Insider. Fleiri svör fengust ekki frá honum.
Bolað út fyrir að neita
Flugfreyjan var kölluð til að framkvæma heilnudd á Musk í einkaklefa hans í flugi við lok árs 2016. Þar segir í gögnum málsins að hún hafi fundið hann kviknakinn en með handklæði yfir neðri hluta líkamans.
Á meðan á nuddinu stendur fjarlægir Musk handklæðið og berar lim í fullri reisn. Hann byrjar að snerta læri flugfreyjunnar og býðst til að kaupa handa henni hest ef hún myndi gera meira, með vísan í kynlíf, en flugfreyjan hefur mikinn áhuga á hestum. Hún neitaði boðinu og hélt nuddinu áfram án þess að gera nokkuð kynferðislegt, segir í gögnum.

Flugfreyjan upplifði mikinn kvíða eftir atvikið. Hún segir að hún hafði ætlað sér að halda vinnunni áfram og láta sem ekkert hafði gerst en fundið fyrir því að henni var boðin minni vinna í framhaldinu. Í gögnum segir að hún hafði upplifað að henni væri bolað út fyrir að hafa ekki þáð boð Musk.
Eftir að henni varð ljóst að hún fengi ekki lengur sömu atvinnumöguleika hjá SpaceX eftir atvikið ákvað hún að leggja inn formlega kvörtun á hendur Musk árið 2018. Á sáttafundi þar sem Musk mætti persónulega var flugfreyjunni boðið 250 þúsund dollara í starfslokagreiðslu gegn því að hún myndi ekki kæra málið né ræða það framar.
Vinkona flugfreyjunnar greindi frá atvikinu við Insider og gaf þeim gögn úr kvörtuninni en bað um nafnleynd. Flugfreyjan vildi ekki tjá sig um málið og er heldur ekki nafngreind. Vinkonan segist vilja vekja athygli á framferði Musk ef fleiri konur skyldu hafa sömu sögu að segja.