Elon Musk, nýr eigandi Twitter, hefur nú leyst upp stjórn fyrirtækisins og tekið algera stjórn á samfélagsmiðlinum. Talið er að þetta hafi hann gert til þess að geta komið af stað miklum breytingum á miðlinum sem taka eigi gildi á næstunni.
Þá hefur hann einnig gefið starfsmönnum Twitter það verkefni að hefja nýja áskriftarleið á samfélagsmiðlinum. Innifalið í nýju áskriftarleiðinni verður auðkenning á Twitter, en henni fylgir bláa merkið sem hingað til hefur verið kostnaðarlaust.
Áskriftarleiðin mun kosta 20 dollara á mánuði, um 3 þúsund krónur, og hefur Musk gefið starfsmönnum til 7. nóvember til þess að taka áskriftarleiðina í notkun. Ef þeim tekst ekki að hefja nýju áskriftarleiðina í tækan tíma, verði þau rekin. Tæknifjölmiðillinn The Verge fjallar um málið.
Áskriftarleiðin sem um ræðir heitir Twitter Blue og er í boði í dag fyrir 4,99 dollara á mánuði. Í dag veitir áskriftarleiðin notendum aukinn aðgang að ýmsu aukaefni og fleiri stillingum á samfélagsmiðlinum.
Musk vill breyta þessari áskriftarleið, gera hana dýrari og bæta auðkenningarmerkinu við í pakkann. Ekki verði lengur hægt að fá bláa merkið án þess að borga í þessari áskriftarleið. Þeir sem borga Twitter Blue í dag munu hafa 90 daga til þess að borga nýju áskriftina, annars missa þau bláa merkið.
Musk tók formlega yfir sem eigandi Twitter á fimmtudaginn síðasta en hann hefur verið staðfastur í að boða breytingar á samfélagsmiðlinum. Eitt af fyrstu verkum hans var að reka alla helstu stjórnendur fyrirtækisins en öryggismenn fylgdu þeim úr höfuðstöðvum Twitter.
Auðkenningarmerkið bláa, var tekið í notkun árið 2009 en það var gert til þess að svara vaxandi bylgju af eftirhermum á samfélagsmiðlinum. Merkið varð fljótt stöðutákn, frekar en sönnun um auðkenni, en árið 2021 voru einungis 400 þúsund notendur með bláa merkið, en um 300 milljónir nota samfélagsmiðilinn daglega.
The whole verification process is being revamped right now
— Elon Musk (@elonmusk) October 30, 2022