Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi greinir frá skoðun sinni á nýjustu fylgismælingum Sjálfstæðisflokksins samkvæmt könnun MMR á fylgi við stjónrnmálaflokkana í júní á Facebook síðu sinni.

Segir hann minnkað fylgi við Sjálfstæðisflokkinn ekki koma sér á óvart. Hafi stefnan um orkupakka 3 beinlínis verið áskorun um að fara úr flokknum.

„Því miður óttaðist ég að júlímæling MMR yrði í þessa átt. Mér hefur enda fundist það vera nánast áskorun á Sjálfstæðismenn að kjósa eitthvað annað þegar fullyrt hefur verið: "þetta mál, Orkupakki 3, hefur ekki haft áhrif á fylgið".

Staðreyndin er sú að það kann ekki góðri lukku að stýra þegar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fer allur sem einn á bak við mál, sem fyrst og fremst á stuðning meðal Samfylkingarflokkanna, og er að auki í andstöðu við vilja Landsfundar,“ segir Elliði í færslu sinni.

Bjarni vonsvikinn

Bjarni Benediktsson sagði í viðtali við mbl.is í dag að hann væri óánægður með fylgið og vonsvikinn með hve illa hefði gengið að koma Orkupakkanum í gegnum þingið.

„Mér finnst að við höf­um ekki náð nægi­lega vel í gegn með okk­ar málstað," sagði Bjarni.

Óánægja og viðkvæmt umhverfi innan flokksins

„Maður átti von á því að svona gæti farið,“ segir Elliði Vignisson við Fréttablaðið.is. „Maður vissi af óánægju innan flokksins og það hefur truflað mig að mikið af trúnaðarmönnum flokksins hafa verið að fullyrða að þriðji orkupakkinn hefði ekki áhrif á fylgið og notað það sem réttlætingu fyrir stuðningi þingflokksins. Mér hefur fundist það hljóma óþarflega ögrandi inn í viðkvæmt umhverfi.“

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn mæl­dist með 19% fylgi í júní sem er það minnsta sem flokk­ur­inn hef­ur mælst með í fyrri könnunum MMR.

„Ég ræddi þetta talsvert á Landsfundi,“ segir Elliði sem segir málinu hafa verið gerð góð skil á síðasta Landsfundi Sjálfstæðismanna.

„Niðurstaðan var mjög skýr þar, Sjálfstæðisflokkurinn geldur varhug við valdsframsali til yfirþjóðlegra stofnana.“

Gjá milli grasrótar og þingflokks

Elliði segir gjá hafa myndast í flokknum um málið og að leysa þurfi úr þeirri stöðu. „Ég hef orðið var við það að alls staðar þar sem ég kem og ræði við Sjálfstæðismenn er gjá í þessu máli á milli grasrótarinnar og þingflokksins.“

„Þetta leitar á Sjálfstæðismenn og það má ekki gera lítið úr þessari umræðu. Sjálfstæðisfólk er ósátt við þá niðurstöðu þingflokksins um að samþykkja þetta mál.“