Frá upphafi bólusetninga gegn Covid-19 hafa borist 279 tilkynningar vegna gruns um alvarlega aukverkjun til Lyfjastofnunar.

Það eru ellefu fleiri en voru þann 12. janúar síðastliðinn þegar 268 tilkynningar höfðu borist.

Þetta kemur fram á vef Lyfjastofnunar.

Samkvæmt skilgreiningu Lyfjastofnunar er alvarleg aukaverkun, aukaverkun eða óæskileg áhrif lyfs sem leiðir til dauða, lífshættulegs ástands, sjúkrahúsvistar eða lengingar á sjúkrahúsvist, veldur fötlun eða fæðingargalla hjá mönnum. Einnig séu þær tilkynningar sem taldar eru klínískt mikilvægar flokkaðar sem alvarlegar, að því er fram kemur á vef stofnunarinnar.

Átta tilkynningar hafa borist vegna gruns um aukaverkanir í kjölfar bólusetningar hjá 5 til 11 ára börnum, engin alvarleg. Meðal einkenna í þessum aldurshópi eru; uppköst, niðurgangur, eymsli í handlegg, hiti, slappleiki, höfuðverkur, þreyta, magaverkir, útbrot og kláði samkvæmt svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Þá hafa 39 tilkynningar borist vegna gruns um aukaverkun í aldurshópnum 12 til 15 ára, þar af eru fjórar metnar alvarlegar.