Ellefu þotur Icelandair hafa í rúmlega fimm mánuði verið skráðar í eigu félagsins Airco ehf. sem var afskráð 19. desember við samruna við Icelandair.

Í lögum um loftferðir segir að ef eigendaskipti verði á loftfari eftir skrásetningu skuli eigandinn tafarlaust tilkynna Samgöngustofu um breytinguna og leggja fram nauðsynlegar skýrslur og skilríki. Þótt Airco ehf. hafi verið afskráð í desember síðastliðnum er félagið í loftfaraskrá enn sagt vera eigandi ellefu þotna sem Icelandair hafi til umráða.

Þórhildur Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir í svari til Fréttablaðsins að breyting á skráningu umræddra véla í loftfaraskrá tengist samruna Airco og Icelandair og að hún hafi „staðið yfir um tíma,“ hjá Samgöngustofu.

„Þó svo samruna félaganna sé lokið í félagaréttarlegum skilningi hjá RSK, þá gerir Samgöngustofa kröfu um skil á tilteknum gögnum svo unnt sé að gera breytingar á eignarhaldi í loftfaraskrá, í samræmi við ákvæði laga um loftferðir. Gagnaskil og frágangur breytinga í því sambandi er nú á lokametrunum,“ segir Þórhildur og bætir við að upphaflega hafi verið um fleiri vélar að ræða sem hafi verið skráðar á nýjan eiganda, Icelandair. „Málið er því í ferli og verður lokið fljótlega.“

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að Samgöngustofu hafi verið tilkynnt tafarlaust um samruna Airco og Ice­landair. „Og hefur Icelandair staðið skil á öllum gögnum vegna hans til Samgöngustofu. Það sem út af stendur eru ákveðnar staðfestingar erlendis frá sem von er á á næstu dögum,“ segir í svari frá Ásdísi.

Þá ítrekar Ásdís að Airco ehf. hafi nú þegar verið sameinað Icelandair ehf., sem hafi því lögformlega tekið við öllum réttindum, skuldbindingum og eignum þess.

Nánar spurð hvaða gögn það séu sem eigi eftir að skila svo eignarhald vélanna sé rétt skráð og hvaða
ákvæða loftferðalaga hún vitni til, segir Þórhildur að sérstaklega sé vísað til þriðja kafla loftferðalaga og þá einkum 15. greinar. Í þeirri grein er meðal annars kveðið á um að leggja þurfi fram „nauðsynlegar skýrslur og skilríki“, eins og nefnt er hér að framan.

Varðandi hvaða gögn vanti vísar Þórhildur einfaldlega á sérstakt eyðublað Samgöngustofu þar sem talin eru í ellefu liðum þau gögn sem skila þurfi við breytta skráningu loftfars. Hún hafnar því að upplýsa hvaða gögn nákvæmlega hafi tafið skráninguna. „Tel að áðurgefnar upplýsingar varðandi gagnaskil verði að duga,“ segir hún. Meðal þess sem skila þarf samkvæmt eyðublaðinu er samþykki veðhafa fyrir eigendaskiptum og staðfesting á því að vélar séu tryggðar í samræmi við lög.

Spurð hvort slík röng skráning vélanna hindri að einhverju leyti notkun þeirra eða geti valdið vandamálum gagnvart vátryggingum segir Ásdís ekki svo vera.

Og Þórhildur tekur í sama streng aðspurð hvort þessar tafir séu ásættanlegar og hvort þær skapi vandamál. Samöngustofa telji að gagnaskilin hafi verið með eðlilegum hætti og að ferlið hafi ekki skapað vanda. Það geti tekið tíma að ganga frá breytingu á opinberri skráningu í loftfaraskrá.