Ellefu starfsmenn, eða heil vakt, á veitingastaðnum Snaps eru komnir í sóttkví eftir að smit greindist á staðnum í þessari viku. Guðrún Vala Benediktsdóttir, rekstrarstjóri Snaps, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið.

Guðrún segir að þetta muni ekki hafa áhrif á starfsemi Snaps. Hún hefur verið í sambandi við sóttvarnarteymi almannavarna og verið er að fylgja öllum ráðleggingum.

„Við þurfum ekki að loka. Það var strax sett önnur vakt af stað. Við erum með gott starfsfólk og gott auka fólk þannig við höldum okkar striki. Þetta er allt gert í samráði við sóttvarnarteymið,“ segir Guðrún.