Alls eru nú orðin ellefu Covid-smit sem tengjast Alþingi. María Rut Kristinsdóttir, varaþingmaður Viðreisnar og aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, greinir frá því á Facebook að hún og eiginkona hennar, Ingileif Friðriksdóttir séu báðar smitaðar.

Hafa nú sex þingmenn, þar af allur þingflokkur Viðreisnar, einn varaþingmaður og fjórir starfsmenn greinst smitaðir. Fundað verður síðar í dag hvort þingfundur verði í þinghúsinu á morgun eða ekki, þingið á eftir að afgreiða fjárlög fyrir áramót.

María Rut segir á Facebook að hún hafi verið með töluverðan sóttkvíða og farið gætilega. „En svona er þetta. Þetta getur bitið okkur öll. Og þetta var sannarlega ekki jólaplanið okkar. Vorum farin að hlakka svo mikið til langþráðra fjölskyldustunda,“ segir hún.