Ellefu mál bíða úr­lausnar Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu (MDE) þar sem látið er reyna á skipun dómaranna fimm­tán við Lands­rétt. Vil­hjálmur H. Vil­hjálms­son, verjandi manns sem sak­felldur var fyrir um­ferðar­laga­brot í Lands­rétti, hefur skotið öllum málunum til dóm­stólsins. 

MDE úr­skurðaði í gær, með nokkuð af­dráttar­lausum hætti, að skipun Sig­ríðar Á. Ander­sen dóms­mála­ráð­herra á fimm­tán dómurum við milli­dóm­stigið Lands­rétt hafi verið and­stæð lögum þar sem hún gerði það þvert á mat hæfnis­nefndar sem mat hæfni um­sækj­enda við dóminn. 

Vil­hjálmur segir í sam­tali við mbl.is að málin sem hann hefur skotið til MDE séu ellefu talsins. Hann tekur undir allan rök­stuðning sem settur er fram í niður­stöðu dómsins sem birtur var í gær. 

Látið var reyna á hæfi Arn­fríðar Einars­dóttur, sem skipuð var við Lands­rétt þrátt fyrir að vera ekki í fimm­tán efstu sætum hæfnis­nefndarinnar, og komst MDE að þeirri niður­stöðu að skipan dóms­mála­ráð­herra hafi verið and­stæð lögum og brotið hafi verið á 6. grein mann­réttinda­sátt­mála Evrópu um rétt ein­stak­lings til rétt­látrar máls­með­ferðar þegar mál skjól­stæðings Vil­hjálms var tekið fyrir.

Eftir að dómur var kveðinn upp í gær tilkynnti Landsréttur að engin mál yrðu tekin fyrir þar út þessa viku eða dómar og úrskurðir kveðnir upp. Óvissa ríkir um réttarfar hér á landi.