Að minnsta kosti 11 manns, þar af átta börn, eru látin eftir skotárás í grunnskóla í Kazan, höfuðborg og stærstu borg lýðveldisins Tatarstan í Rússlandi.

Mikill viðbúnaður er á svæðinu, jafnt frá lögreglu og sjúkraflutningamönnum, en 21 sjúkrabíll var sendur á vettvangur og sextán manns fluttir á sjúkrahús með alvarlega áverka.

Fregnum ber ekki saman um hvort um sé að ræða einn eða tvo skotárásarmenn en talið er að um sé að ræða aðila á unglingsaldri sem er að baki árásinni.

Rússneska fréttastofan RIA greinir frá því að annar skotmaðurinn hafi verið handtekinn en hinn sé látinn. Sá sem var handtekinn er 17 ára gamall.

Rússneskir miðlar hafa birt myndband sem sýnir nemendur hoppa út um glugga á fyrstu og þriðju hæð skólabyggingarinnar, þar á meðal tvö börn sem létust við fallið eftir að hafa stokkið út um glugga á þriðju hæð. Sama myndband hefur farið á dreifingu um samfélagsmiðla.