Alls hafa ellefu látið lífið af völdum CO­VID-19 kóróna­veirunnar á Ítalíu á síðustu fjórum dögum. Allir hinna látnu voru yfir 62 ára aldri og með undir­liggjandi heilsu­fars­vanda­mál. Veiran hefur dreifst hratt um landið eftir að hún tók kipp síðast­liðna helgi og hafa nú yfir 320 manns greinst með veiruna.

Leita að fyrsta smit­beranum

Á síðustu dögum hefur Ítalía fundið fyrir á­hrifum kóróna­veirunnar í auknum mæli en enn hefur fyrsti smit­berinn ekki fundist og því ekki hægt að rekja upp­drög sjúk­dómsins. Um 50 þúsund manns í ellefu bæjum er haldið í sótt­kví og blátt bann liggur við því að ferðast til og frá svæðunum.

Yfir­­­völd innan Ítalíu reyna að sporna við út­breiðslu smita með því að sekta þá sem virða ekki út­­­göngu­bann. Opin­berum stofnunum of sam­komu­stöðum hefur einnig verið lokað í á­kveðnum bæjum.

Veiran virðir ekki landa­mæri

Heil­brigðis­ráð­herrar Frakk­lands, Þýska­lands, Ítalíu og fram­kvæmdar­stjórn ESB gerðu í gær sátt­mála um að halda landa­mærum opnum þrátt fyrir smit­hættu. „Um er að ræða veiru sem ber enga virðingu fyrir landa­mærum,“ sagði Rober­to Speranza, heil­brigðis­ráð­herra Ítalíu.

Það virðast vera orð að sönnu þar sem sí­fellt fleiri ríki bætast í hóp þeirra sem stað­fest hafa smit CO­VID-19 veirunnar. Í gær til­kynntu heil­brigðis­yfir­völd Sviss, Austur­ríkis og Króatíu um fyrstu smit þar í landi og búast má við því að fleiri lönd bætist dag­lega á listann á næstu dögum.