Ellefu framboð eru í tveimur kjördæmum, en tíu í öðrum. Framboðsfrestur til alþingiskosninga rann út klukkan 12 á hádegi í dag. Ekki verður þó ljóst fyrr en á morgun hversu mörg framboð eru í hverju kjördæmi því að það þarf að úrskurða um lögmæti framboðanna í einhverjum kjördæmanna.
Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Flokkur fólksins, Viðreisn, Píratar, Framsóknarflokkurinn, Vinstri hreyfingin grænt framboð, Miðflokkurinn bjóða fram í öllum kjördæmum auk Sósíalistaflokksins og Frjálslynda lýðræðisflokksins en flokkurinn Ábyrg framtíð býður fram í tveimur kjördæmum, það er Reykjavík norður og Suðurkjördæmi.
Búið er að staðfesta lögmæti lista í Norðvesturkjördæmi en annars verða fundir á morgun með framboðum í kjördæmum þar sem að tilkynnt verður um lögmæti bæði lista og meðmæla sem flokkarnir skiluðu inn með framboðstilkynningum sínum. Búast má við því að um eða eftir hádegi á morgun verði búið að staðfesta lögmæti lista um allt land.
Staðfesta flest framboðin á morgun
„Það á eftir að fara yfir þau gögn sem skilað var, það er að segja tilkynningum um frambjóðendur og meðmæli og núna eru þessu skilað bæði rafrænt og á pappír þannig það þarf að fara yfir þetta og ganga úr skugga um að þetta sé eins og lög gera kröfu um,“ segir Heimir Herbertsson, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, í samtali við Fréttablaðið.
Hann segir að allir flokkar fái tilkynningu ef það þarf að gera úrbætur og flokkarnir fá tækifæri til að gera þær úrbætur.
„Svo verður fundur hjá yfirkjörstjórnum á morgun, sameiginlegur, þar sem að það verður úrskurðað um lögmæti framboðanna og þau kynnt formlega,“ segir Heimir.
Hann segir að fundi loknum liggi fyrir hverjir eru í framboði til alþingiskosninga í kjördæminu og að þær upplýsingar verði sendar til landskjörstjórnar sem birtir og auglýsir þær upplýsingar.
Samkvæmt upplýsingum frá formönnum yfirkjörstjórna í öðrum kjördæmum er ferlið svipað á morgun.
Fréttin hefur verið leiðrétt, í upptalningu framboða vantaði Framsóknarflokkinn.