Kín­verskum björgunar­sveitum hefur tekist að ná ellefu námu­verka­mönnum úr Hus­han gull­námunni sem hrundi á dögunum.

Alls festust 22 námu­verka­menn í námunni eftir að inngangur hennar sprakk þann 10. janúar. Einn námu­verka­maður lést þegar náman féll saman og er ekki vitað um hvort hinir 10 séu á lífi.

Kín­verkir ríkis­fjöl­miðlar sýndu frá því þegar fyrsti námu­verka­maðurinn komst upp úr námunni. Hann var með bundið fyrir augun svo birtan á yfir­borðinu myndi ekki skemma þau. Hann var fluttur sam­stundis á spítala. Sam­kvæmt BBC var hann afar veik­burða. Á næsta klukku­tímanum tókst að ná 8 námu­verka­mönnum út og er einn þeirra sagður al­var­lega slasaður.

Nokkrir námu­verka­menn voru í á­gætu á­sig­komu­lagi og gátu gengið ó­studdir en voru engu að síður fluttir á spítala í skoðun.

Mikill viðbúnaður hefur verið við námuna frá því að slysið gerðist.
Ljósmynd/AFP

Námuslys algeng og níu yfirmenn handteknir

Námu­verka­mennirnir voru í um 600 metra dýpi þegar náman hrundi. Það tók nokkra daga fyrir björgunar­sveitar­menn að ná sam­bandi við þá en síðan þá hefur verið hægt að senda þeim vatn og mat í gegnum lítið rör.

Námu­verka­mennirnir sögðu við björgunar­sveitar­fólkið að þeir höfðu verið í tal­sam­bandi við einn námu­verka­mann sem var um 100 metrum neðar en þeir en þeir höfðu ekkert heyrt frá honum síðustu daga. Sem fyrr segir er ekki vitað um af­drif 10 námu­verka­manna.

Slys í námum í Kína eru al­geng og er vinnu­staða­eftir­lit sagt á­bóta­vant. Í desember í fyrra létust 23 námu­verka­menn vegna þegar loft­fræsting í námunni brást. Í septem­ber í fyrra létust einnig 16 námu­verka­menn af sömu á­stæðu.

Sam­kvæmt AP frétta­veitunni hafa 9 yfir­menn Hus­han gull­námunnar verið hand­teknir fyrir að til­kynna ekki slysið strax.