Kínverskum björgunarsveitum hefur tekist að ná ellefu námuverkamönnum úr Hushan gullnámunni sem hrundi á dögunum.
Alls festust 22 námuverkamenn í námunni eftir að inngangur hennar sprakk þann 10. janúar. Einn námuverkamaður lést þegar náman féll saman og er ekki vitað um hvort hinir 10 séu á lífi.
Kínverkir ríkisfjölmiðlar sýndu frá því þegar fyrsti námuverkamaðurinn komst upp úr námunni. Hann var með bundið fyrir augun svo birtan á yfirborðinu myndi ekki skemma þau. Hann var fluttur samstundis á spítala. Samkvæmt BBC var hann afar veikburða. Á næsta klukkutímanum tókst að ná 8 námuverkamönnum út og er einn þeirra sagður alvarlega slasaður.
Nokkrir námuverkamenn voru í ágætu ásigkomulagi og gátu gengið óstuddir en voru engu að síður fluttir á spítala í skoðun.

Námuslys algeng og níu yfirmenn handteknir
Námuverkamennirnir voru í um 600 metra dýpi þegar náman hrundi. Það tók nokkra daga fyrir björgunarsveitarmenn að ná sambandi við þá en síðan þá hefur verið hægt að senda þeim vatn og mat í gegnum lítið rör.
Námuverkamennirnir sögðu við björgunarsveitarfólkið að þeir höfðu verið í talsambandi við einn námuverkamann sem var um 100 metrum neðar en þeir en þeir höfðu ekkert heyrt frá honum síðustu daga. Sem fyrr segir er ekki vitað um afdrif 10 námuverkamanna.
Slys í námum í Kína eru algeng og er vinnustaðaeftirlit sagt ábótavant. Í desember í fyrra létust 23 námuverkamenn vegna þegar loftfræsting í námunni brást. Í september í fyrra létust einnig 16 námuverkamenn af sömu ástæðu.
Samkvæmt AP fréttaveitunni hafa 9 yfirmenn Hushan gullnámunnar verið handteknir fyrir að tilkynna ekki slysið strax.