Mót­mæli hafa brotist út í Bólivíu vegna máls ellefu ára stúlku sem varð ó­létt eftir nauðgun. Talið er að stúlkan hafi verið beitt þrýstingi til að klára með­gönguna, meðal annars frá hópum sem berjast gegn fóstur­eyðingum.

Spænska frétta­veitan EFE greinir frá þessu.

Stúlkunni var nauðgað í­trekað af stjúpafa sínum á heimili hans í bænum Yapa­cani, en þar var stúlkan bú­sett meðan for­eldrar hennar voru við vinnu í höfuð­borginni La Paz. Í frétt EFE kemur fram að stúlkan hafi í fyrstu lýst þeim vilja sínum að binda endi á með­gönguna og móðir hennar verið á sama máli.

Mæðgunum hafi síðar snúist hugur eftir að trúar­sam­tök, sem berjast gegn fóstur­eyðingum, settu sig í sam­band við þær og beittu þær þrýstingi. Stúlkan er gengin 21 viku.

Mót­mæli hafa farið fram í borginni Santa Cruz de la Si­erra, þeirri fjöl­mennustu í Bólivíu, vegna þeirrar stefnu sem yfir­völd hafa tekið varðandi fóstur­eyðingar. Fóstur­eyðingar eru að­eins heimilaðar í undan­tekningar­til­fellum í Bólivíu, til dæmis ef um nauðgun eða sifja­spell er að ræða en bannaðar í öðrum til­fellum.

Car­men Sana­bria, tals­kona hópsins sem hafa látið sig málið varða og mót­mælt á götum Santa Cruz, segir við EFE að í þessu til­felli sé verið að „verð­launa“ nauðgarann en refsa stúlkunni. Segir hún að næstu skref í málinu séu að ná betur eyrum al­þjóð­legra mann­réttinda­sam­taka vegna stöðu mála.