Rétt fyrir sjö í gærkvöldi fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tilkynningu frá föður 11 ára drengs um að syni hans hefði verið ógnað af ungum manni með eggvopn á bifreiðastæði nærri sundlaug. Drengurinn náði að hlaupa heim og láta föður sinn vita. Þetta kom fram í dagbók lögreglunnar.

Rétt eftir tvö í nótt var tilkynnt um grunsamlegan mann á ferð í Garðabæ. Hann mun hafa hringt dyrabjöllu í húsi og orðið vandræðalegur þegar húsráðandi kom til dyra, eins og hann hefði ekki búist við að fólk væri heima. Maðurinn sagðist vera í söluerindum og að hann hefði farið húsavillt. Hann fannst skömmu síðar sitjandi í bifreið og var handtekinn, grunaður um nytjastuld bifreiðar, brot á vopnalögum og vörslu fíkniefna.  Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Rétt fyrir sex í gær var tilkynnt um mann sem var að stela úr verslunum. Hann var handtekinn skömmu síðar og ætluðu þýfi í fórum hans var skilað aftur í verslanirnar. Hann var vistaður í fangageymslu á meðan mál hans var unnið og svo látinn laus.

Fjórir ökumenn voru stöðvaðar í gærkvöldi og nótt grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Klukkan hálfníu var tilkynnt um ónæði frá íbúð í fjölbýlishúsi í Kópavogi. Þrír aðilar í íbúðinni eru grunaðir um vörslu fíkniefna. Skýrsla var tekin af einum á vettvangi og par sem var í mjög annarlegu ástandi var handtekið og vistað í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við þau.

Rétt eftir ellefu í gærkvöldi var tilkynnt um eld í bát. Enginn eldur var sjáanlegur, en það var mikill reykur, sem er talinn hafa komið frá rafgeymum. Ekki er vitað um skemmdir.