Nýr kvennahlaupsbolur var afhjúpaður í dag við hátíðlega athöfn. Eliza Reid forsetafrú og Donna Cruz leikkona voru meðal þeirra sem mátuðu bolinn fyrir myndatöku Sjóvá.

100 prósent endurunninn

Bolurinn í ár, sem er nokkurs konar tákn nýrra tíma, er 100 prósent endurunninn; úr blöndu af lífrænni bómull og endurunnu plasti. Linda Árnadóttir, lektor í fatahönnun við Listaháskóla Íslands og eigandi íslenska hönnunarfyrirtækisins Scintilla, hannaði grafíkina á bolnum.

„Bolurinn er tákn nýrra tíma, hugsaður frá grunni og slær tóninn fyrir nýja hugsun,“ segir í tilkynningu Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ.

Kvennahlaupið fer fram þann 13. júní næstkomandi, 30 árum eftir að fyrsta kvennahlaupið var haldið. Á fyrstu árum var markmiðið að hvetja konur til hreyfingar og almennrar þátttöku í íþróttastarfi. Í dag á Ísland afrekskonur á öllum sviðum íþrótta og er almenn hreyfing með besta móti.

Gera hlutina á eigin forsendum

Nú í ár er markmiðið að hvetja konur til þess að gera hlutina á eigin forsendum.

„Kvennahlaup nútímans snýst um hreyfingu sem hentar hverjum og einum, samveru kynslóðanna, líkamsvirðingu, sanngirni, umhverfismeðvitund og valdeflingu.“

Þjóðþekktar konur mátuðu bolinn.