Um 14.500 evrur eða rúmlega tvær milljónir íslenskra króna söfnuðust á góðgerðarmarkaði fyrir utan Evrópuráðið í gær og rennur allur ágóðinn til kaupa á rafstöð fyrir sjúkrahúsið í Karkív.

Eliza Reid forsetafrú var heiðursgestur markaðarins og opnaði hann með ávarpi.

Um 20 þjóðir Evrópuráðsins tóku þátt og buðu til sölu mat og ýmsan varning frá hverju landi. Þar á meðal var fastanefnd Íslands, sem sá um skipulagningu markaðarins.

Á íslenska borðinu voru seldar íslenskar bókmenntir í enskri og franskri þýðingu. Seldar voru bækur eftir Jón Kalman, Einar Kárason, Auði Övu og Elizu Reid, sem voru gefnar markaðnum og allur ágóði rann til söfnunarinnar.