Eliza Reid forsetafrú hefur birt bréf sem hún sendi eiginmanni sínum, Guðna Th. Jóhannessyni forseta, þegar hann var á Íslandi, en hún við störf í Englandi. Bréfið skrifaði hún á íslensku, þar sem hún vildi heilla verðandi eiginmann sinn með málsnilld sinni. Bréfið birtir hún í tilefni Dags íslenskrar tungu sem er í dag.

„Kæri vinur Guðni, Þau eru ljósmyndirnar. Að mínu áliti, þau eru gott. Íslanzka mín er ekki gott, nema vaninn gefur listina. Eigi að siður, ég hef miklar mætur á enskri tungu. Berðu fjölskylda þín kveðju mína. Virðingafyllst og með ást,“ segir í bréfinu sem dagsett er 26. september árið 1999, þegar Eliza var 23 ára gömul.

Sem fyrr segir, birti forsetafrúin bréfið á Facebook-siðu sinni í dag. Þar óskar hún landsmönnum til lukku með daginn, sem er helgaður tungumálinu og mikilvægi þessu í íslensku samfélagi.

„Af þessu góða tilefni datt mér í hug að deila með ykkur fyrsta bréfinu sem ég skrifaði á íslensku. Ég samdi það ung að árum, 23 ára gömul, þegar ég kynntist Guðna og vildi heilla hann með málsnilld minni. Ég vissi ekki alveg hvað það var ég sem setti saman en ég átti gamla bók með orðatiltækjum á íslensku og ensku (þetta var fyrir daga gúgglþýðinga) og þannig tókst mér að hnoða þessu saman. Hann var hér á Íslandi, ég að vinna úti á Englandi, og með bréfinu fylgdu nokkrar ljósmyndir, væntanlega frá ferð okkar um Snæfellsnes sumarið áður.“