Elísa­bet Guð­munds­dóttir, lýtalæknir, var um hálf­tólf­leytið í gær­kvöldi hand­tekin við Fjarðar­hraunið í Hafnar­firði fyrir að mæta ekki í yfir­heyrslu vegna máls sem kom upp í byrjun desember á Kefla­víkur­flug­velli en þá neitaði Elísa­bet að gangast undir sótt­kví eða skimun við komu til landsins. Elísa­bet átti að mæta í skýrslu­töku hjá lög­reglunni en mætti ekki og var í kjöl­farið eftir­lýst og hand­tekin í gær. Elísabet hefur haft hátt um andúð sína á sóttvarnaaðgerðum yfirvalda.

Elísa­bet birti sjálf mynd­skeið af hand­tökunni á Face­book-síðu sinni þar sem hún segist hafa verið „hand­tekin, hand­járnuð og barin“.

Mætti ekki til yfirheyrslu

Skúli Jóns­son, stöðvar­stjóri hjá lög­reglunni í Hafnar­firði, þver­tekur fyrir það í sam­tali við Frétta­blaðið að Elísa­bet hafi verið lamin.

„Hún sinnti ekki kvaðningu út af málinu þegar hún kom er­lendis frá. Við birtum henni kvaðningu og hún átti að mæta í yfir­heyrslu þegar sótt­kví lauk en mætti ekki og þetta er fram­hald af því. Hún var yfir­heyrð og látin laus,“ segir Skúli.

Hann segir málinu lokið af þeirra hálfu og það fari næst til á­kæru­sviðs sem tekur á­kvörðun um fram­haldið.

„Lög­regla er ekkert að berja fólk. Það er svoleiðis. Hún var hand­tekin út af þessu máli,“ segir Skúli að lokum.

Tók illa í að fara með lögreglunni

Fjallað var um myndböndin á vef Hringbrautar þar sem kemur fram að Elísabet hafi tekið illa í beiðni lögregluþjóna um að koma með sér og sagði að þeir þyrftu að bera hana. Til orða­skipta kemur á milli Elísa­betar og lög­reglu­mannsins og á einum tíma­punkti heyrist lög­reglu­þjónninn segja: Þú sparkar ekki í lög­reglu­mann.“