Klipparinn Elísabet Ronaldsdóttir er einn farsælasti kvikmyndagerðarmaður landsins. Hún er stödd á Íslandi um þessar mundir og í íslenskum kvikmyndahúsum má sjá hennar nýjasta verkefni, Bullet Train. Í október heldur Elísabet utan í ný verkefni.

„Ég er að fara aftur til Ástralíu. Ég festist þar út af Covid,“ segir Elísabet og hlær. Elísabet ræddi við Fréttablaðið í janúar um árslöngu dvölina í Ástralíu sem kom til vegna vinnuferðar.

Með andfætlingum til jóla

„Ég var heilt ár úti að klippa mynd sem heitir Sang Chi fyrir Marvel. Við komum til Sidney í janúar 2020. Ég fór með aðstoðarmanninum og við byrjuðum á að fara í flensusprautu. Það var jú mælst til þess, Marvel vill ekki hafa fólkið sitt veikt,“ segir Elísabet við það tækifæri.

„Síðan vorum við bara föst þar fram að jólum. Allt fór í háaloft og lönd lokuðu, enginn vissi hvenær við kæmumst aftur heim. Við vorum þar í heilt ár.“

Nú tekur annað verkefni við, sem fyrr segir einnig í Ástralíu. Um er að ræða nýjustu mynd David Leitch, bandarísks leikstjóra sem Elísabet hefur unnið mikið með. Leitch hefur getið sér gott orð fyrir kvikmyndir eins og Atomic Blonde og Deadpool 2.

„Nú erum við að fara aftur þangað að skjóta aðra mynd. Ekki Marvel heldur Universal mynd sem heitir The Fall Guy.“ Ryan Gosling fer með aðalhlutverk í The Fall Guy ásamt leikkonunni Emily Blunt.

Missti af frumsýningarferðalagi

„Það er bara spennandi. Ég vona bara að það verði ekki fleiri vírusar sem koma í veg fyrir ... þetta er bugandi. Þessar nýju tegundir í hverri viku,“ segir Elísabet sem nýverið veiktist af veirunni skæðu. Veikindin kostuðu hana frumsýningarferðalag Bullet Train, heimsborga á milli. Elísabet sat af sér veiruna í hitabylgju á hóteli á Englandi.

„Það var þannig að ég var í London. Líka af því að ég var að vinna lækningaverkefni sem að heitir Expendables 4. Þetta Covid kom upp þar. Það var bara þannig. Ég hef alveg sloppið síðustu tvö og hálft ár, og þannig séð get ég ekki kvartað, en ég ætla ekki að gera það aftur,“ segir hún ákveðin.

Elísabet segist fegin að vera á Íslandi í dag, í því sem hún kallar hressandi roki og ágústrigningu í stað hitabylgju í Evrópu. „Það er gott súrefni hérna og svona,“ segir hún létt í bragði.

Leikhópur Bullet Train á frumsýningu myndarinnar í Berlín í júlí.
Fréttablaðið/Getty

Ætlar til Víetnam um jólin

Ástralíudvöl Elísabetar verður ekki árslöng að þessu sinni, og stefnir hún á að ljúka þar verkefnum í mars eða apríl. „Þá fljúgum við beint til L.A. og höldum áfram að klippa þar,“ segir hún og bætir við að fjölskylda hennar hafi ákveðið að hittast í Víetnam um jólin og njóta þess að vera saman þar. „Það er mjög spennandi og ég hlakka mikið til þess,“ segir hún.

Elísabet ber andfætlingum og Ástralíu vel söguna og segir Sydney yndislega borg. „Það er ekkert að Ástralíu en það er bara svolítið langt í burtu frá fjölskyldunni minni. En það væsir ekki um mann og borgin er nokkuð örugg.“

Elísabet segist hlakka til að koma aftur. „Auðvitað kynnist maður fólki, við vorum þarna í ár. Ég get sagt að ég hafi búið í Ástralíu, þó að ég hafi ekki verið með stöðu borgara. En ég var komin með augnlækni, tannlækni og allskonar! Þegar maður er kominn með svoleiðis á skrá hjá sér, þá bara býr maður þar. Það verður yndislegt að hitta fólkið sem maður kynntist og bast böndum.“

Aðspurð hvort að kvikmyndabransinn hafi breyst mikið varðandi fjarvinnu svarar Elísabet að afgerandi breyting hafi orðið á verklagi.

Með kvikmynd í vasanum í flugi

„Tæknin er augljóslega komin til að vera. Ég man það þegar Bullet Train byrjaði, vorum við föst í Ástralíu með Shang-Chi fyrir Marvel. Ég fór í janúar til L.A. og þá gátum við ekki unnið í stúdíóinu. og við vorum að vinna svona hybrid heiman frá. Ég man að ég var í einhverju tveggja vikna sjálfskipaðri einangrun. Ekki að Ameríka hafi krafist þess, LA eða borgaryfirvöld heldur fyrirtækið Marvel krafðist einangrunar. Sem ég gerði með glöðu geði. Þá var ég bara að vinna heiman frá, úr einhverju Airbnb,“ útskýrir Elísabet.

„Svo var þetta blanda af því að vinna heima og í stúdíóinu. En ég var þar mjög stutt af því að um miðjan febrúar hoppa ég yfir og fer á Bullet Train,“ segir hún. „Þá var ég í tvær vikur, bara heiman frá, að vinna Bullet Train.“ Í framhaldinu segir Elísabet stúdíóin hafa afráðið að opna ekki, og gert öllu starfsfólki að vinna að heiman.

„Ég var í L.A. og benti þeim á að heima fyrir mér væri Ísland,“ segir Elísabet. „Og það er svona merki um hvað það hefur breyst, að stúdíóið sagði bara: Já, ókei. Og svo bara gekk ég um með harðan disk og fór í flug með harðan disk að myndinni. Sem ég hefði bara aldrei gert fyrir Covid! Aldrei nokkurn tímann. Það var svona upplifun. Þannig að ég var að vinna í Bullet Train alveg frá lokum febrúar og þangað til um miðjan júní.“

Brad Pitt hjá Neytendasamtökunum

Svo fór að Bullet Train var klippt í tveimur heimsálfum, á Íslandi og í Bandaríkjunum. „Ég leigði mér skrifstofu hjá dásamlegu fólki hjá Neytendasamtökunum. Okkur fannst vel við hæfi að klippa Brad Pitt hjá þar,“ segir Elísabet og hlær.

Elísabet flaug með harðan disk að Bullet Train milli heimsálfa og lauk verkefninu á skrifstofu sem hún leigði í Reykjavík.
Mynd/Getty

„Neytendasamtökin eiga stóran þátt í þessari mynd. Svo fór ég aftur út og þá voru stúdíóin búin að opna upp úr miðjum júní. En þá var mér og David [Leitch] sagt að við gætum ekki verið í sama herbergi. Út af Covid þurftu allir að vera lokaðir inni í sínu herbergi og okkur leist nú ekki á það,“ segir Elísabet sem dó þá ekki ráðalaus. „David og framleiðandinn okkar, Kelly McCormick, eru hjón. Sony leigði Airbnb fyrir okkur, alveg rosalega höll. Ég bara flutti inn til þeirra og við bjuggum bara saman þangað til í desember,“ segir Elísabet.

„Ég klippi mikið ein og svona, en við gátum horft á þetta saman og talað um þetta og velt fyrir okkur. Svo poppuðum við og horfðum á bíó og sjónvarp á kvöldin. Þetta var mjög gaman. Þetta var þægilegt samfélag í smá kvikmyndakommúnu.“

Nánir vinir til níu ára

Elísabet, David og Kelly hafa verið vinir í 9 ár. „Þetta er níunda árið sem við vinnum saman. Við áttum mjög náið samband fyrir, vegna þess að þegar ég varð veik voru þau stoð mín og stytta. Það eru margir fletir á því. En við bindumst mjög sterkum vinaböndum,“ segir hún.

Veikindin sem Elísabet vísar til er fjórða stigs krabbamein í brisi, og við greiningu í ágúst 2017 ætluðu læknar að Elísabet ætti aðeins hálft ár eftir ólifað. Vinir Elísabetar stóðu þó þétt við bakið á henni og útveguðu henni bestu mögulegu meðferð, sem gekk vonum framar. Elísabet lætur vel af sér í dag.

„Ég er bara fyr og flamme og sjö níu þrettán og ekkert að mér. En hver veit sína ævi, skilurðu,“ segir hún. „En þetta eru komin fjögur ár og það er bara gott. Ég er voða lítið að pæla í þessu og það gengur bara mjög vel. Ég vona bara að ég fái ekki covid aftur,“ bætir hún við.

Samfélagið dýrmætt

Aðspurð, hvort að þreytandi sé að ferðast svo mikið, og hálfpartinn búa í ferðatösku, svarar Elísabet játandi. „Já, það eru svo sannarlega kostir og gallar. Ég ég myndi miklu frekar vilja vinna hérna heima. Á sama tíma eru hlutir sem ég myndi sakna, eins og þetta samfélag kvikmyndagerðarmanna.“

Hún segir heimsfaraldurinn hafa gert henni það enn ljósara. „Við fundum það alveg öll í Covid, hvað er erfitt að vera ekki á sama stað. Það skapast visst andrúmsloft sem er svo gefandi og skapandi. Maður myndi sakna þess ef maður væri bara að vinna heiman frá.“