Rithöfundurinn, skáldið og fyrrum fjölmiðlakonan Elísabet Jökulsdóttir er komin með nýtt nýra en systir hennar, Unnur Þóra, greinir frá þessu.

Að sögn Unnar var hringt í Elísabetu á fimmtudag og var hún farin ytra daginn eftir og gekkst undir aðgerðina aðfaranótt laugardags.

Elísabet greindi frá því í samtali við Stundina fyrr á þessu ári að hún væri komin með nýrnabilun á lokastigi eftir röð læknamistaka og að hún væri á biðlista eftir nýju nýra í Svíþjóð.

Í viðtalinu kom fram að það voru einstaklingar búnir að bjóða henni nýra en það var ekki búið að finna einstakling með nýra sem hentaði Elísabetu fyrr en nú.

Í færslu Unnar kemur fram að það gangi allt samkvæmt óskum og að nýrað sé farið að starfa eins og eðlilegt sé.