Rithöfundurinn Elísabet Kristín Jökulsdóttir greinir frá því í dag að hún hafi farið í þungunarrof þegar hún var 35 ára í sambandi með ofbeldismanni. Hún segist hafa gert það vegna þess að hún vildi ekki þurfa að vera í sambandi við manninn það sem eftir væri.

Frá þessu greinir Elísabet í færslu á Facebook, sem hún gaf blaðamanni Fréttablaðsins góðlátlegt leyfi til að vinna frétt upp úr.

Var ráðlagt að ljúga að manninum

„Ég fór einusinni í fóstureyðingu eftir ofbeldismann, það var mjög sárt og erfitt, ég þurfti að fara tvisvar uppá deild til að komast í gegnum það, [...] , þetta var hræðilegt, mig langaði ekki í fóstureyðingu en vissi að ef ég gerði það ekki myndi ég vera í „sambandi“ við manninn það sem eftir væri.“ skrifar Elísabet sem segir að sér hafi verið ráðlagt að ljúga að manninum að hún hefði misst fóstrið.

„Mér var ráðlagt að ljúga því að honum að ég hefði misst fóstrið. Eftir þetta gat ég hætt í sambandinu við hann, hann hafði að vísu ekki beitt mig ofbeldi nema andlegu með því að segja mér hvernig hann hafði farið með aðrar konur, t.d. með því að handleggsbrjóta eina.“

„Mér fannst að þetta hlyti að vera Áslákur“

Elísabet greinir síðan frá merkilegri upplifun sem hún varð fyrir einhverjum árum eftir þungunarrofið, þá fannst henni hún finna fyrir fóstrinu, sem hún hafði gefið nafn.

„Ég gaf fóstrinu nafn og skrifaði handa því leikrit. Svo gleymdist það einsog gengur eða hvarf í tímans dökka djúp, líf mitt hélt áfram. En einu sinni þegar ég var að labba heim frá Landsspítalanum en þá hafði ég verið á geðdeild fann ég að ung manneskja um fjórtán ára gamall ungur drengur labbaði við hliðina á mér. Ég veit ekki hver eða hvað þetta var en þetta gerðist aðeins í þetta eina sinn. Mér fannst að þetta hlyti að vera Áslákur.“

Ekki hlutverk „heimskra og misvitra“ dómara að ákvarða

Frásögn Elísabetar er innlegg í stærri umræðu er varðar þungunarrof, en í síðustu viku ákvarðaði hæstiréttur Bandaríkjanna að það væri ekki stjórnarskrárbundin réttur fólks að fara í þungunarrof, með því að snúa við dómi kenndan við Roe gegn Wade, frá árinu 1973.

Í kjölfarið hefur myndast mikil umræða um þungunarrof, bæði vestanhafs sem og annars staðar, líkt og hér á Íslandi.

Í lok færslu Elísabetar kemur hún inn á þetta. Hún segir ljóst að það sé ekki auðvelt að fara í þungunarrof og segir óæskilegt að lagalegar hömlur geri það enn erfiðara,

„En í framhaldi af þessu vil ég segja, það er nógu erfitt fyrir konu að fara í fóstureyðingu, - af ýmsum orsökum- þótt ekki komi til heimskir og misvitrir dómarar og þjóðfélag sem dæmir og heldur í forneskjuna, hið ævagamla ættbálkaveldi.“