Elísabet II Englandsdrotting mun ekki taka þátt í þingsetningu breska þingsins í ár, þetta kemur fram í yfirlýsingu Buckingham hallar. Karl bretaprins mun flytja ræðuna fyrir hönd móður sinnar við athöfnina sem fram fer á fimmtudaginn næstkomandi. Drottningin missti síðast af athöfninni árið 1963. Elísabet, sem komin er á 96 aldursár, hefur átt erfitt með gang og hefur undanfarið þurft að afboða komu sína á opinbera viðburði og heimsóknir.

Á vef breska ríkisútvarpsins BBC er haft eftir talsmönnum Buckingham hallar að drottningin hafi gert sér vonir um að mæta á athöfnina en nú hefur það verið staðfest að drottningin sé ekki fær um að mæta vegna skertrar hreyfigetu.

Ræða drottningar á innsetningarathöfninni markar upphaf þingársins hjá breska þinginu og í ræðu drottningar eru verkefni stjórnarinnar og lög sem verða lögð fyrir þingið tíunduð. Drottningin hefur aðeins tvisvar sleppt því að halda þingsetningarræðunni, fyrst árið 1959 og síðast árið 1963 í bæði skiptin var það vegna veikinda á meðgöngu.