Elín Anna Gísla­dóttir vara­þing­maður Við­reisnar sagði við um­ræður um fjár­lög 2022 á Al­þingi í dag að sér hefði „blöskrað“ við aðra um­ræðu þeirra.

„Mér blöskraði að horfa upp á aðra um­ræðu fjár­laga að fara af stað án þess að nokkur ráð­herra væri hér við­staddur og reyndar var varla að sjá þing­mann frá stjórn í salnum eftir at­kvæða­greiðsluna á málinu. Á undan horfði ég á stjórnar­þing­menn kveðjast með orðunum sjáumst á morgun. Ekki nokkur á­hugi virtist vera á því að í þing­sal færi fram eitt­hvert sam­tal um mikil­vægustu lög landsins. Hraðinn, vinnu­tíminn, vald­hrokinn, sem var sýndur í sam­ræðum í gær, er ekki til eftir­breytni og tel ég að þingið þurfi að vanda betur til verka“, sagði Elín.

Hún sagði að einn liður í því væri til dæmis að setja lög um að þing­kosningar færu fram að vori. Með því væri hægt að tryggja nægjan­legt svig­rúm til stjórnar­myndunar og setningar fjár­laga.

„Reyndar hafði ríkis­stjórnin í hendi sér að boða til kosninga á vori eins og allar fyrri ríkis­stjórnir hafa gert sem hafa setið heilt kjör­tíma­bil eftir skyndi­legar haust­kosningar. Síðan væri ekki verra að sjá meiri­hlutann bera virðingu fyrir störfum og um­boði þing­manna minni­hlutans.“

Hún sagði á­huga­vert að skoða fjár­laga­frum­varpið nú. Ekki væri langt síðan það var lagt fram en þá hafði staðan vegna Co­vid-19 far­aldursins verið allt önnur. Því kæmi sú bjart­sýni sem fjár­laga­frum­varpið bæri með sér spánskt fyrir sjónir nú. „Það er spurning hvort til­efni sé til þess að setjast yfir stöðuna sem þjóðin stendur nú frammi fyrir og endur­meta hvað bíður okkar.“