Elín Anna Gísladóttir varaþingmaður Viðreisnar sagði við umræður um fjárlög 2022 á Alþingi í dag að sér hefði „blöskrað“ við aðra umræðu þeirra.
„Mér blöskraði að horfa upp á aðra umræðu fjárlaga að fara af stað án þess að nokkur ráðherra væri hér viðstaddur og reyndar var varla að sjá þingmann frá stjórn í salnum eftir atkvæðagreiðsluna á málinu. Á undan horfði ég á stjórnarþingmenn kveðjast með orðunum sjáumst á morgun. Ekki nokkur áhugi virtist vera á því að í þingsal færi fram eitthvert samtal um mikilvægustu lög landsins. Hraðinn, vinnutíminn, valdhrokinn, sem var sýndur í samræðum í gær, er ekki til eftirbreytni og tel ég að þingið þurfi að vanda betur til verka“, sagði Elín.
Hún sagði að einn liður í því væri til dæmis að setja lög um að þingkosningar færu fram að vori. Með því væri hægt að tryggja nægjanlegt svigrúm til stjórnarmyndunar og setningar fjárlaga.
„Reyndar hafði ríkisstjórnin í hendi sér að boða til kosninga á vori eins og allar fyrri ríkisstjórnir hafa gert sem hafa setið heilt kjörtímabil eftir skyndilegar haustkosningar. Síðan væri ekki verra að sjá meirihlutann bera virðingu fyrir störfum og umboði þingmanna minnihlutans.“
Hún sagði áhugavert að skoða fjárlagafrumvarpið nú. Ekki væri langt síðan það var lagt fram en þá hafði staðan vegna Covid-19 faraldursins verið allt önnur. Því kæmi sú bjartsýni sem fjárlagafrumvarpið bæri með sér spánskt fyrir sjónir nú. „Það er spurning hvort tilefni sé til þess að setjast yfir stöðuna sem þjóðin stendur nú frammi fyrir og endurmeta hvað bíður okkar.“