Elín Oddný Sigurðardóttir, varaborgarfulltrúi, gefur kost á sér í fyrsta sæti í forvali Vinstri Grænna í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosninga. Elín hefur á liðnu kjörtímabili verið varaborgarfulltrúi og verið varaformaður velferðarráðs, fulltrúi í skóla-og frístundaráði og menningar- íþrótta og tómstundaráði.

Í tilkynningu frá Elínu Oddnýju kemur fram að frá því að hún fór fyrst að sinna borgarmálum fyrir fimmtán árum hafi þau átt hug hennar allan.

„Mín hugsjón er hefur ávallt verið skýr: að vinna í þágu velferðar allra borgarbúa í víðasta skilningi þess hugtaks. Velferðarmál, kvenfrelsi, húsnæðismál, menntun og velferð barna ásamt mannréttindum jaðarsettra hópa hafa ávallt verið mér hugleikin. Eins hvernig við sköpum mannvæna, græna og lýðræðislega menningarborg fyrir komandi kynslóðir. Ég hef ávallt haft það að leiðarljósi í mínum störfum að það eru ekki alltaf þeir sem eru í mestri þörf hverju sinni sem hafa hæstu röddina,“ segir Elín í tilkynningu sem má sjá hér að neðan.

Forval um þrjú efstu

Tilkynnt var í gær að forval yrði um þrjú efstu sæti á lista VG í Reykjavík. Líf Magneudóttir tilkynnti stuttu síðar að hún myndi aftur sækjast eftir oddvitasætinu en hún hefur verið oddviti flokksins í Reykjavík frá 2016.