„Hinn svokallaði eldveggur milli auglýsingadeildar og ritstjórnar á ekki við í þessu tilviki,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, um ályktun stjórnar félagsins gegn auglýsingu fyrirtækisins Samherja á vefmiðlinum mbl.is. Í ályktun stjórnarinnar segir að auglýsingin sé hluti af ófrægingarherferð gegn Helga Seljan og félögum hans í Kveik. Auglýsingin leiði lesendur inn á myndband sem hafi þann eina tilgang „að reyna að þvinga fram bann við því að fréttamaðurinn Helgi Seljan fjalli um málefni fyrirtækisins“.

„Slíkt er alvarleg aðför að frjálsri fjölmiðlun og gróf atlaga að fréttamanni þar sem vegið er að starfsheiðri hans,“ segir í ályktun stjórnar BÍ.

Í kjölfar ályktunar BÍ sagði trúnaðarmaður starfsmanna Morgunblaðsins, Guðni Einarsson, af sér. Ástæða afsagnar hans er afskipti félagsins af auglýsingabirtingunni en hann telur að með slíkum afskiptum hafi stjórnin farið langt út fyrir sitt hlutverk. Síðdegis í gær sagði hinn trúnaðarmaður BÍ hjá Morgunblaðinu, Kristín Heiða Kristinsdóttir, einnig af sér og vísaði til sömu ástæðna og Guðni.

Sigríður Dögg segir að umræðan um eldvegginn í þessu samhengi sé byggð á misskilningi á meginmarkmiði hans. „Hugmyndin með eldveggnum er að tryggja sjálfstæði ritstjórna gagnvart auglýsingadeild og koma í veg fyrir að blaðamenn séu beittir þrýstingi í umfjöllun sinni í tengslum við sölu auglýsinga,“ segir Sigríður Dögg. „Eldveggurinn er ekki til þess að vernda auglýsingadeildina fyrir þrýstingi frá blaðamönnum,“ segir hún.

Sigríður bendir á að það sé hlutverk félagsins að standa vörð um félagsmenn og verja þá gegn öllum þeim sem vega að starfsheiðri þeirra og stéttinni allri.

Þá lýsir hún ástæðum þess að stjórnin ályktaði um málið: „Þarna verður félagsmaður okkar fyrir árás og ekki í fyrsta skipti. Auglýsingin er liður í kerfisbundinni árás á félagsmann BÍ og okkur ber að bregðast við því,“ segir Sigríður og bætir við: „Svo starfa félagsmenn BÍ líka á mbl.is og vinna fréttir sem birtast við hlið þessarar auglýsingar. Þeim kann að vera erfitt að hreyfa andmælum á sínum vinnustað og til þess er félagið, að veita þeim einnig stuðning.“